„Ég fæ ekki annað séð en að nefndin hafi með þessari nýju umsögn alfarið hafnað sínum eigin vinnubrögðum sem hún viðhafði í Landsréttarmálinu. Ég fagna því,“
segir Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem í dag skrifar um skipan dómara við Hæstarétt, í Morgunblaðið, en ein slík staða var auglýst nýverið hvar átta sóttu um stöðuna. Hæfnisnefnd sagði þrjá vera hæfari en aðra umsækjendur og væru þeir þrír allir jafn hæfir:
„Um leið má ljóst vera að nefndin hefur líka hafnað fyrri niðurstöðu sinni um hæfni þessara tilteknu umsækjenda. Niðurstaða hennar nú um hæfni umsækjendanna er ekki í samræmi við niðurstöðu hennar í Landsréttarmálinu. Það sannar bara það sem ég hef haldið fram. Mat á hæfni umsækjenda eru ekki raunvísindi heldur að nokkru leyti huglægt mat sem margir áþreifanlegir og óáþreifanlegir þættir hafa áhrif á,“
segir Sigríður einnig.
Hún telur að með umsögn sinni hafni nefndin einnig niðurstöðu Hæstaréttar um hæfnismatið við skipuna í Landsrétt, en þá niðurstöðu hefur Sigríður ekki sætt sig við, en líkt og kunnugt er sagði Sigríður af sér embætti dómsmálaráðherra í kjölfar niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu.
Virðist hún telja að ósamræmið í umsögninni, samanborið við umsagnirnar í Landsréttarmálinu, sýni fram á að vinnubrögðin í Landsréttarmálinu af hálfu hæfnisnefndarinnar þá, hafi ekki verið boðleg.
Sigríður segir einnig ánægjulegt að hæfnisnefndin hafi látið af því fúski sem hafi viðgengist um árabil:
„Landsréttarmálið leiddi í ljós brotalöm við skipun dómara sem hefur viðgengist í áratugi. Ég lét það ekki átölulaust. Það er ánægjulegt að hæfnisnefndin, sem vissulega gegnir mikilvægu hlutverki í aðdraganda skipunar, sé nú að láta af vinnubrögðum sem m.a. umboðsmaður Alþings hefur um árabil gagnrýnt og ég hafði fulla ástæðu til að reyna að bæta úr. Mér hefði fundist meiri bragur á því að nefndin kæmi hreinna fram og viðurkenndi mistök sín í Landsréttarmálinu og tæki þannig þátt í málefnalegri umræðu um fyrirkomulag við skipan dómara. Trúlega er lítil von til þess. Þess í stað virðast nefndarmenn og þeir dómarar sem kváðu upp dóma í desember 2017 byggða á óforsvaranlegri niðurstöðu nefndarinnar horfa í gaupnir sér á meðan reynt er að vega að íslenskri stjórnskipan og Hæstarétti á erlendri grundu. Nýjasta umsögn nefndarinnar er þó skref í átt að betrun. Íslensk stjórnvöld hljóta að koma því á framfæri í málaferlunum í Strassborg.“