Alls voru skrifaðar 1558 umsagnir um hvort seinka ætti klukkunni um eina klukkustund í samráðsgátt stjórnvalda þar sem almenningu gafst kostur á að segja hug sinn. Búið er að birta samantekt á umsögnunum á vef stjórnarráðsins.
Meirihluti umsagnaraðila var hlynntur því að seinka bæri klukkunni, en einnig voru tveir aðrir valkostir gefnir upp.
Valkostirnir voru eftirfarandi:
A – Klukkan áfram óbreytt en fólk hvatt með fræðslu til að fara fyrr að sofa.
B – Klukkunni seinkað um 1 klst.
C – Klukkan áfram óbreytt en skólar og jafnvel fyrirtæki og stofnanir hefji starfsemi seinna á morgnana.
Niðurstöðurnar eru nokkuð ólíkar þeim er kannanir hafa leitt í ljós, þar sem afstaðan var meira afgerandi til seinkunar.
Sjá einnig: Meirihluti landsmanna vill láta seinka klukkunni
Sjá einnig:MIKILL MEIRIHLUTI ÍSLENDINGA VILL SEINKA KLUKKUNNI
Helstu sjónarmið einstaklinga sem styðja seinkun klukku nefndu eftirfarandi rök
• staðartími á að vera í takt við líkamsklukkuna
• seinkuð líkamsklukka hefur í för með sér
– klukkuþreytu
– neikvæðar heilsufarslegar afleiðingar
• niðurstöður rannsókna sýna aukinn og bættan svefn sem leiðir til
– betri heilsu
– auðveldara verður að vakna
– sparnaðar í heilbrigðiskerfinu, þ.m.t. vegna lyfjanotkunar
• taka verður tillit til barna og unglinga en seinkuð líkamsklukka hefur meiri áhrif á
þau en fullorðna
• kostir breytingar verða meiri en ókostir hennar
Helstu sjónarmið félagasamtaka/fyrirtækja/stofnana sem styðja seinkun klukku:
• of fljót staðarklukka er líkleg til að skekkja líkamsklukkuna og seinka henni
• Íslendingar fara seinna að sofa en aðrir Evrópubúar og sofa of stutt
– fólk sefur skemur þar sem klukkan er of fljót miðað við hnattstöðu
• neikvæðar heilsufarslega afleiðingar, rannsóknir hafa sýnt tengsl við
– offitu
– sykursýki 2
– hjarta- og æðasjúkdóma
– ónæmiskvilla
– áfengis- og tóbaksneyslu
– þunglyndi
– jafnvel dauðsföll
• rannsóknir benda til þess að stór hluti landsmanna sé með seinkaða líkamsklukku
og þar með klukkuþreytu
• unglingar og ungt fólk finna mest fyrir seinkaðri líkamsklukku
– lakari námsárangur
– brottfall úr skólum
• vísindin styðja að seinkun klukku gæti haft verulegan lýðheilsulegan ávinning
• morgunbirta bætir líðan
• félagsleg virkni og framleiðni gæti aukist
• jafnframt er hvatt til þess að:
– fræðsla um svefn og líkamsklukku verði aukin, m.a. í skólastarfi
– sveigjanleiki í vinnutíma fólks verði aukinn
– sveigjanleiki í skólabyrjun verði aukinn, sérstaklega hjá unglingum og ungu
fólki
Starfshópur skipaður af heilbrigðisráðherra skilaði 31. janúar 2018 greinargerð um ávinning fyrir lýðheilsu og vellíðan landsmanna af því að leiðrétta klukkuna til samræmis við gang sólar.
Forsætisráðherra ákvað í janúar 2019 að setja málið í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda. Margar umsagnir voru ítarlegar og vel rökstuddar og ljóst að fólk lagði mikla vinnu í vandaðar umsagnir, samkvæmt tilkynningu.
Forsætisráðuneytið mun vinna áfram með niðurstöður samráðsins en stefnt er að því að niðurstaða fáist í kringum vorjafndægur 2020.