fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Eyjan

Elliði ósáttur og vill nýtt orð í stað afneitunarsinna – „

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 9. desember 2019 14:30

Elliði Vignisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mér finnst orðið „afneitunarsinni“ ljótt og notkun þess lítt líkleg til uppbyggjandi umræðu um loftlagsbreytingar. Mér finnst þurfa nýtt orð.  Orð sem er ekki uppfullt af hroka og opnar á umræðu frekar en að loka henni. Orð sem sýnir því virðingu að loftlagsmál eru eitt stærsta áhyggjuefni samtímans. Orð sem leggur áherslu á að samtal og mannvirðingu.“

Svo segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss. Hann biður um að nýtt orð verði fundið í staðinn.

Pistill hans er eftirfarandi:

„Afneitunarsinni“ er nýtt orð

Ég man lítið eftir notkun þess þar til nýlega.  Þegar því er til dæmis slegið inni í leitarvélina „timarit.is“ þá koma upp tvær færslur.  Sú fyrri frá 1994 þegar það var notað í tímariti Máls- og menningar í tengslum við umræðu um ofsóknir gegn Gyðingum (þeir sem vilja endurskoða- eða afneita þeirri staðreynd að Gyðingar urðu fyrir ofsóknum).  Í seinni færslunni í „Degi“ er það haft í umfjöllun um leikritið „Jónas týnir jólunum“, en Jónas þessi afneitaði því sem sagt að jólin væru til.

 

Afneitunarsinnar og trúboðar

Orðið „afneitunarsinni“ í tengslum við jafn mikilvægt efni og loftlagsmál þykir mér hrokafullt.  Þeir sem nota það telja sig hafa umvafið sannleikann svo fast að ekkert svigrúm sé til annarrar skoðunar.  Að þeir sem vilja nálgast málið á öðrum forsendum (svo sem með öðrum gögnum) séu á sama stað og þeir sem afneita tilvist jólanna eða helfararinnar.  Þeir sem þannig tala líkjast gjarnan trúboðum.  Þeir sem afneita trúnni eru trúvillingar, afneitunarsinnar.

Ég tel áhrif mannsins markverð

Sjálfum þykir mér líklegt, meira að segja mjög líklegt, að áhrif mannsins á loftlagsbreytingu séu markverð.  Flest af því sem borið er á borð fyrir mann um umhverfismál bendir til þess að loftslag á jörðinni sé að breytast og að áhrif mannsins séu þar áhrifavaldur. Ég hef hins vegar ekki sett mig vel inn í þessi mál.  Meira bara gleypt í mig almenna umræðu án forsendna til sjálfstæðrar skoðunarmyndunar. Ekkert er því fjær mér en að uppnefna þá sem hafa aðra afstöðu í þessu máli. Þvert á móti þá finn ég að afstaða mín þroskast og dýpkar við samræðurnar.

Umræðan er ekki til óþurftar

Umræða um loftlagsmál eru í mínum huga stærsta hagsmunamál mannkynsins í dag.  Það kemur bara þrennt til greina.  Í fyrsta lagi getur verið að áhrif mannanna séu jafn veruleg og dægurumræðan bendir til.  Þá er þörf fyrir þær aðgerðir sem við sjáum víða. Í öðru lagi getur verið að áhrif mannanna sé umtalsvert minni en dægurmálaumræðan bendir til.  Þá er verið að sóa ofboðslegum verðmætum í baráttunni.  Verðmætum sem hægt væri að nýta til annarra þarfra samfélagslegra verkefna.  Í þriðja lagi getur verið að sannleikurinn liggi þarna á milli.  Munurinn á þessu og afstöðu til trúmála er sá að það er einhver mælanlegur ytri veruleiki í loftlagsmálum.  Sumt er rétt og annað er rangt.  Rök og gögn sem ýmist eru með eða á móti eiga því við. Umræðan er því þörf.

Nálgast þarf umræðuna á forsendum vísinda, ekki trúar

Sama hver sannleikurinn er, þá er slæmt að umræðan sé með þeim hætti að sumir -jafnvel þeir sem mesta ábyrgð bera- telja sig þess umkomna að nálgast sitt eigið hugmyndakerfi sem hið eina sanna. Ekki reyni á rök og gögn.  Öllu sem ekki er í sömu áttina beri að vísa frá eins og biblíu í mosku múslima eða styttu af Búddha í Hólakirkju.  Slíkir aðilar taka sér stöðu trúboðans sem nálgast málin þannig að þeir sem halda öðru fram séu „afneitunarsinnar“.

Okkur vantar nýtt orð

Ég legg það til að fundið verði betra orð en „afneitunarsinni“.  Æskilegt væri að það orð bæri með sér virðingu fyrir skoðun þeirra sem ekki gangast möglunarlaust undir almannaróm um loftlagsbreytingar, afleiðingar þeirra og aðgerðir til að takast á við þær.  Ég geri þá kröfu að orðið sé frekar gagnsætt og beri með sér virðingu fyrir mikilvægi loftlagsmála og þeim einstaklingum sem orðið er notað um.

Ert þú með tillögu?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Jólahugleiðing

Óttar Guðmundsson skrifar: Jólahugleiðing
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Erfitt fyrir innlenda verslun að keppa við erlenda aðila sem lúta ekki sömu reglum og kröfum

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Erfitt fyrir innlenda verslun að keppa við erlenda aðila sem lúta ekki sömu reglum og kröfum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK