Samfélag Namibíumanna í Bandaríkjunum afhenti Bergdísi Ellertsdóttur, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, áskorun í gær. „Ríkisstjórn ykkar verður að neyða íslenska fyrirtækið, Samherja, til þess að skila peningunum til fólksins í Namibíu,“ segir í áskoruninni. Mbl.is fjallaði fyrst um málið
Samfélag Namibíumanna birtir þessa áskorun á Facebook-síðu sinni en þar segja þeir að það sé algengt meðal fólks að halda að spilling sé algengt og venjulegt vandamál í Afríku. Það vakti einmitt mikla athygli þegar Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, staðfesti þetta með ummælum sínum í kjölfar Samherjamálsins. „Það er nú kannski líka það sem er sláandi og svo sem lengi vitað að spillingin í þessum löndum – auðvitað er rót vandans í þessu tiltekna máli veikt og spillt stjórnkerfi í landinu. Það virðist vera einhvers konar rót alls þess sem við erum að sjá flett ofan af,“ sagði Bjarni í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Í áskoruninni er þessu vísað á bug. „Flestir Namibíumenn vinna hart fyrir lifibrauði sínu. Flestir Namibíumenn búa við fátækt, en ná samt að koma börnunum í skóla og setja mat á borðið fyrir fjölskylduna. Í öðrum orðum erum við Namibíumenn harðvinnandi fólk sem fá engan arð frá spillingu örfárra einstaklinga í landinu okkar,“ segir í áskoruninni.
https://www.facebook.com/Namibiancommunity/posts/2371864166257594