Greint er frá því í vefmiðlinum MNA í Macau í dag að ræðismaður Íslands í Portúgal hafi fengið bréf frá hagsmunasamtökunum Plataforma de Reflexao Angola (PRA) í Portúgal þar sem kallað er eftir því að íslensk stjórnvöld geri hlé á viðskiptasambandi sínu við Angóla vegna Samherjamálsins, þangað til að niðurstaða fáist, í nafni mannréttinda og sjálfbærrar þróunar.
Í bréfinu er sagt að Samherjamálið sé því miður bara eitt af mörgum:
„Ástandið í Angóla er komið úr böndunum og fær engan stuðning frá alþjóðasamfélaginu. Við munum aldrei ná að losna undan kerfisbundnum þjófnaði á náttúrulegum auðlindum okkar,“
segir í bréfinu.
Samtökin eru sögð óttast að yfirvöld í Angóla muni ekkert gera í málinu, ólíkt því sem gerðist í Namibíu, þar sem ráðherrar voru handteknir og bankareikningar „frystir“.
Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins staðfesti að sendiherra Íslands í París hefði fengið bréf frá samtökunum í gær, en þar hefði ekki verið farið fram á stöðvun viðskipta milli Íslands og Angóla. Heldur hafi einungis verið óskað eftir aðstoð íslenskra stjórnvalda við að uppræta spillingu í Angóla. Því megi telja frétt MNA ranga hvað þetta varðar:
„Ég get staðfest að erindi frá samtökunum Plataforma de Reflexao Angola (PRA) sem eru óháð félagasamtök Angólamanna í Portúgal, barst sendiráði Íslands í París í gær en það fer með fyrirsvar gagnvart Portúgal. Erindið hefur verið framsent hingað í utanríkisráðuneytið. Þar er óskað eftir aðstoð stjórnvalda á Íslandi við að uppræta spillingu í Angóla en ekki er lagt til að viðskipti á milli ríkjanna– sem eru sáralítil – verði stöðvuð.
Þá má geta þess að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra fer fyrir spillingarrannsókn í samstarfi við Matvæla – og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna(FAO) um úttekt á veiðum og viðskiptaháttum útgerða í þróunarlöndum, en Árni Mathiesen er aðstoðarframkvæmdastjóri hjá FAO.