Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, mærir einkarekið skólakerfi í pistli í Fréttablaðinu í dag og nefnir að Ísland sé þar eftirbátur annarra þjóða, hér séu aðeins 2.3% grunnskólabarna í sjálfstætt starfandi skólum og 15% leikskólabarna.
„Einkaframtakið er víða leiðandi í framþróun skólastarfs. Sjálfstætt reknir skólar hafa auðgað skólaflóruna og fjölgað valkostum fyrir fjölskyldur. Um það verður ekki deilt. Þeir hafa kynnt til leiks nýstárlega hugmyndafræði og nýjar framsæknar skólastefnur. Þeir hafa veitt foreldrum fleiri valkosti um áherslur í uppeldi og menntun barna sinna. Þeir hafa tryggt fjölskyldum meira frelsi og meira val.“
Þá segir Hildur:
„Árangur íslenskra barna í PISA-könnunum hefur valdið vonbrigðum.“
Hún tekur síðan dæmi af Hollandi, þar sem um 70% grunnskólabarna sæki einkarekna skóla, sem hafi vakið athygli fyrir framúrskarandi menntun og mælist meðal efstu þjóða í PISA könnunum:
„Hollenska skólakerfið er gott dæmi þess að aukið valfrelsi og meiri samkeppni í skólamálum skilar árangri.“
Hildur nefnir að opinber framlög til sjálfstæðra skóla hér á landi takmarkist almennt við 75% af framlögum til opinberra skóla og segir rekstrarumhverfið erfitt:
„Innheimta skólagjalda bætir ekki upp þennan fjárhagslega mismun. Auk þess getur innheimta skólagjalda gert nemendahópinn einsleitan, enda ekki öllum kleift að greiða með börnum sínum skólagjöld. Börn efnameiri foreldra eiga nú aukin tækifæri til að velja milli ólíkra skóla hérlendis. Þannig ýtir núverandi fyrirkomulag, sem síður styður við einkarekstur í skólakerfinu, enn frekar undir stéttaskiptingu meðal barna.“
Hildur vill því ekki að einkareknir skólar fjármagni sig sjálfir með skólagjöldum, þar sem það geti ýtt undir stéttaskiptingu. Heldur vill hún heldur að hið opinbera auki framlög sín til einkarekinna skóla með því að tryggja jöfn framlög með hverju barni, sama hvort það sækir einkarekinn skóla eða almennan:
„Eftir sem áður leggur undirrituð til að Reykjavíkurborg tryggi jöfn opinber framlög með hverju barni í skólakerfinu, óháð rekstrarformi þess skóla sem um ræðir. Þannig kæmust sjálfstætt starfandi leik- og grunnskólar hjá innheimtu skólagjalda – og tryggja mætti öllum börnum jöfn tækifæri til þeirrar menntunar sem býðst í borginni, óháð efnahag foreldra. Það er hvort tveggja – réttlætismál og framfaramál.“
Reykvískir nemendur bæta sig á öllum þáttum PISA milli prófa og hafa sterka stöðu á landsvísu samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Í niðurstöðum í lesskilningi í PISA- 2018 er 30 PISA-stiga munur á frammistöðu á höfuðborgarsvæðinu (2.036 nemendur, 485 stig) og frammistöðu í öðrum landshlutum (1.260 nemendur, 455 stig).
Frammistaða barna í Reykjavík er betri en 2015. Meðalstig nemenda í Reykjavík (489 stig) er svipað og meðaltal OECD-landa sem tóku þátt 2018 (487 stig).
Samkvæmt niðurstöðum PISA hafa íslenskir nemendur bætt sig marktækt í læsi á stærðfræði frá árinu 2015 og er Ísland nú rétt yfir meðaltali OECD í þeirri grein. Talsverður munur er á frammistöðu nemenda á þessu sviði eftir landshlutum og standa nemendur í Reykjavík og nágrenni sterkast að vígi. Munur á frammistöðu á höfuðborgarsvæðinu (2.036 nemendur, 506 stig) og frammistöðu í öðrum landshlutum (1.260 nemendur, 477 stig) er 29 stig, og er það svipaður munur og er á frammistöðu í lesskilningi. Þá er meðalstig reykvískra nemenda (509 stig) hærra en meðalstig þeirra OECD landa sem tóku þátt 2018 (489 stig) sem og þeirra OECD landa tóku þátt 2012 (494 stig).
Læsi nemenda á Íslandi á náttúruvísindi er samkvæmt PISA nánast óbreytt frá árinu 2012, en þar líkt og í lesskilningi og læsi á stærðfræði standa nemendur í Reykjavík og nágrenni sterkast að vígi. Munur á frammistöðu á höfuðborgarsvæðinu (2.036 nemendur, 486 stig) og frammistöðu í öðrum landshlutum (1.260 nemendur, 457 stig) er 29 stig, sem er álíka munur og er á frammistöðu í öðrum matssviðum PISA.
Ef frammistaðan nú er borin saman við PISA 2015, þegar læsi á náttúruvísindi var síðast aðalsvið PISA, er frammistaða reykvískra nemenda marktækt betri og ef litið er lengra aftur má sjá óbreytta frammistöðu frá 2006. Meðalstig nemenda í Reykjavík (488 stig) er nánast það sama og meðaltal OECD landanna sem tóku þátt 2018 (489 stig).
Sjá niðurstöður PISA-könnunar 2018 á vef Menntamálastofnunar.