Dagur B. Eggertsson, læknir og borgarstjóri Reykjavíkur, hélt tölu á fundi læknaráðs í síðasta mánuði um hvernig læknar hefðu haft áhrif á uppbyggingu borgarinnar og hvernig borgaryfirvöld gætu stuðlað að heilsusamlegra líferni.
„Pólitík er ekkert annað en lýðheilsa, bara svolítið róttækari,“ segir Dagur við Læknablaðið.
„Það að berjast fyrir auknu heilbrigði í samhengi við skipulag borga og bæja er ekki endilega vinsælt þó að það sé gríðarlega gagnlegt. Með samspili borgarmyndunar og ójöfnuði erum við að sjá nýja mynd af faröldrum. Offita er einn af þeim. Það vekur mikil viðbrögð í samfélaginu hvernig við tölum um þetta eða hvort við tölum um offitu sem heilbrigðisvanda,“
segir Dagur ennfremur.
Dagur leggur áherslu á mikilvægi skipulags sem hvatningu til hreyfingar:
„Það má segja að við séum í endurskoðunarfasa þegar kemur að læknisfræði og borgarskipulagi. Við erum að ræða og fjalla um áhrif skipulags á heilsu og þurfum að hafa heilbrigðisgleraugu á öllu sem við gerum. Ofþyngd er nátengd stétt og stöðu, hún er nátengd ójöfnuði,“
sagði Dagur og vísaði í tölfræði frá bandaríkjunum sem sýnir að hlutfall offitu hafi hækkað úr 10-15 prósentum árið 1990 í 25 prósent árið 2005 og hafi farið vaxandi.
Hann segir að útlitið hafi verið slæmt hér á landi samkvæmt tölfræðigögnum ársins 2010-11, en vísbendingar væru um að þróunin hafi batnað eftir hrun, þar sem hreyfing sé lykilþáttur. Hann nefnir einnig að borgarskipulag sé stór breyta hvað þetta varðar.
Dagur vitnar í tölur frá Bandarísku stofnuninni Clean Air Act, sem hafi ráðist í mikla gagnasöfnun í Bandaríkjunum sem sýndi mikilvægi borgarskipulags á lýðheilsu:
„Áhrif borgarskipulags á lífshætti, eins og hreyfingu, er mikill. Þau sýna að það skiptir máli í hvernig borgarhverfi þú býrð fyrir það hvernig þú hreyfir þig,“
segir Dagur og nefnir að umhverfið hafi áhrif á heilsufarsþætti eins og ofþyngd og þunglyndi:
„Það er línulegt samband á milli hreyfingar og þess hvort þú býrð í þéttri og blandaðri byggð eða dreifðri. Það skiptir til að mynda máli hvað skólinn er langt frá heimili þínu og hve langt er í næsta græna svæði. Líkurnar á að hreyfa sig aukast um 20% ef útivistarsvæði er innan 1 kílómetra fjarlægðar frá heimilinu, um 21% ef skóli er innan þessa marka, 23% þegar þéttleiki byggðar eykst um fjórðung og 19% þegar þjónustan eykst um fjórðung. Þetta er ástæðan fyrir því að við viljum að innan aðalskipulags Reykjavíkur sé útivistarsvæði innan 300 metra frá sem allra flestum heimilum.”
Segir Dagur að þetta eigi við um 93% heimila í borginni.