Gífurlega langur og sérstæður ritdómur Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar birtist í helgarútgáfu Morgunblaðsins. Er þar fjallað um bók Sven Harald Øygards, Í víglínu íslenskra fjármála, og gefur Hannes bókinni aðeins tvær stjörnur af fimm mögulegum. Sven Harald er Norðmaður og var settur Seðlabankastjóri hér á landi um stutt skeið eftir hrun. Raunar er bókadómurinn að megninu til yfirlit yfir fjármálahrunið á Íslandi frá sjónarhóli Hannesar þar sem vörnum er haldið uppi fyrir Davíð Oddsson, sem settur var af sem seðlabankastjóri þá er Sven Harald var settur í embættið. Í ritdómnum heldur Hannes því fram að setning Sven Harald í embættið hafi verið stjórnarskrárbrot þar sem hann er erlendur ríkisborgari. Hannes klykkir síðan út með að segja að Sven sé ekki flínkur höfundur og texti hans ruglingslegur.
Mikið hefur verið fjallað um ritdóm Hannesar á samfélagsmiðlum og sumir hæðst að honum og talið hann langt frá því að vera hlutlausan ritdómara. Gunnar Smári minnist á málið í Facebook-hópi Sósíalistaflokks Íslands: „Mogginn fékk Hannes Hólmstein til að skrifa ritdóm um Í víglínu íslenskra fjármála, bók Svein Harald Øygard um Hrunið sem Hannes og félagar bjuggu til. Hannes var ekki hrifinn af bókinni.“
Kristjón Kormákur Guðjónsson, nýráðinn vefritstjóri Fréttablaðsins, sendi Hannesi fyrirspurn vegna málsins. Hannes gerir sér lítið fyrir og skrifar Kristjóni opið bréf á Eyjunni þar sem hann rekur samskipti þeirra. Hannes segir fyrirspurn Kristjóns skrýtna en hún er svohljóðandi:
„Heill og sæll Hannes. Hef samband við þig frá Fréttablaðinu. Ég tók eftir að Gunnar Smári Egilsson var að gagnrýna það harðlega að þú værir að skrifa dóm um bók Øygard. Gunnar Smári segir: „Mogginn fékk Hannes Hólmstein til að skrifa ritdóm um Í víglínu íslenskra fjármála, bók Svein Harald Øygard um Hrunið sem Hannes og félagar bjuggu til. Hannes var ekki hrifinn af bókinni.“ Nokkur fjöldi tekur undir með honum í þeirri gagnrýni. Mig langaði að senda þér línu og spyrja hvað þér finnst um þennan málfutning [svo]. Þá liggur beinast við að spytja [svo] hvort þú sért vanhæfur til að fjalla um verkið? Þú ert til dæmis mjög góður vinur Davíðs, fyrrverandi seðlabankastjóra, og um það hefur verið fjallað í fjölmiðlum og þá vitnað í verk Øygard um að örlög Íslands hafi til dæmis ráðist á fundi bankastjóra heima hjá Davíð. Í ljósi tengsla þinna er þá ekki frekar óheppilegt að þú skrifir dóm um verkið sem er síðan birt í blaði sem vinur þinn, ritstjóri og fyrrverandi seðlabankastjóri stýrir? Nú er ég búinn að lesa dóminn, en í styttra máli, hvað finnst þér helst vanta í verkið og eins, hvað er vel gert? Væri afar þakklátur ef þú hefðir tök á að svara þessu, hvort sem það væri skriflega eða í gegnum síma. Kveðjur góðar, Kristjón Kormákur“
Hannes segir að Gunnar Smári sé tæpast yfirdómari um það hverjir megi og hverjir megi ekki skrifa ritdóma í Morgunblaðið. Hann sé afreksmaður í því að setja blöð á hausinn og kallar hann þessu nafni: Gunnar blaðafellir. Hannes segir enn fremur:
„Gunnar Smári Egilsson segir, að við höfum búið til hrunið. Þetta er enn fráleitara en þær skoðanir, sem þessi landsfrægi blaðafellir hefur sett fram um ýmislegt annað og getið er hér að ofan. Bankahrunið íslenska var angi af hinni alþjóðlegu fjármálakreppu, sem skall fyrr og harðar á Íslandi en öðrum löndum, af því að við vorum óvarin, ein og óstudd og áttum ekki lengur neina volduga vini. Bankar um allan heim áttu í miklum erfiðleikum með að afla sér lausafjár og hefðu margir fallið, hefði bandaríski seðlabankinn ekki hlaupið undir bagga með seðlabönkum ýmissa landa, þar á meðal í Svíþjóð og Sviss.“
Hannes segir að skýringar Øygards á bankahruninu standist ekki skoðun og fer yfir það í sex atriðum (sjá hér). Hann spyr Kristjón síðan að því hvort það skiptu engu máli í hans huga að Øygard hafi verið settur seðlabankastjóri þvert á ákvæði stjórnarskráinnar um að embættismenn skuli vera íslenskir ríkisborgarar.