Jim Ratcliffe, breski auðjöfurinn sem hefur keypt upp mikið landsvæði á Norðausturlandi, er nú talinn eiga um 1.4% jarða hér á landi. Í frétakýringaþættinum Kveik í gær kom fram að Ratcliffe ætti nú meirihluta í 30 jörðum, eða rúmlega tvöfalt meira en í ársbyrjun 2018.
Þá er hann minnihlutaeigandi í níu jörðum og á veiðirétt í tveimur til viðbótar. Af þeim 39 jörðum sem hann á hluti í eru 24 í Vopnafirði.
Fjöldi jarðanna sem Ratcliffe keypti var í gegnum fjárfestinn Jóhannes Kristinsson í Lúxemborg, sem var sjálfur stórtækur í jarðakaupum á svæðinu, en það er breska móðurfyrirtækið Halicilla Limited sem heldur utan um eignir Ratcliffe, en félagið er í eigu hans. Jóhannes fór með jarðir sínar í gegnum félagið Dylan Holding, sem hann er skráður fyrir.
Samkvæmt Kveik þá færðust hlutir fimm félaga árið 2018 frá Dylan Holding til Halicilla í Bretlandi og virðast jarðirnar því hafa skipt um hendur alfarið utan landssteinanna. Þá er tekið fram að sú einstaka staða sé nú komin upp, að eignarhlutir í 39 jörðum séu í óbeinni eigu sama félagsins í Bretlandi, og gæti Ratcliffe í raun selt þær allar á einu bretti.
Lítið bólar á frumvarpi ríkisstjórnarinnar um jarðakaup útlendinga hér á landi, sem Sigurður Ingi Jóhannesson, samgöngu – og sveitastjórnarráðherra vonaðist til að yrði tilbúið snemma í haust, en allir forystumenn ríkisstjórnarflokkanna hafa lýst vilja sínum um að takmarka beri jarðakaup erlandra auðmanna.
Sagði Katrín Jakobsdóttir að það væri skýrt í hennar augum að ekki bæri að líta á land eins og hverja aðra vöru eða þjónustu, um það giltu aðrar reglur.
Sjá einnig: Hræsnarinn Ratcliffe og jarðirnar hans á Íslandi