Icelandair hyggst taka Boeing MAX vélar sínar í gagnið í mars á næsta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair þar sem ný flugáætlun fyrirtækisins er kynnt, til 40 áfangastaða.
Sem kunnugt er voru MAX 737 vélarnar kyrrsettar í kjölfar flugslysa í Indónesíu og Eþíópíu og er Icelandair í viðræðum við Boeing verksmiðjurnar um skaðabætur vegna kyrrsetningarinnar. Var tjón félagsins metið á 19 milljarða króna samkvæmt uppgjöri annars ársfjórðungs en hugsanlega má bæta einhverju við þá tölu síðan þá og fram í mars.
Icelandair gefur ekki upp fjárhæðina sem það hefur fengið í skaðabætur, né hverjar kröfur þess voru til Boeing.
Boeing hefur uppfært hugbúnaðinn í MAX vélunum og þurfa því flugmenn að undirgangast þjálfun að nýju áður en þeim er flogið.
Áætlað er að 4.2 milljónir farþega ferðist með þotum félagsins á árinu og heildarframboð sæta verði 5.1 milljón. Hefur félagið aldrei flutt fleiri farþega til Íslands en á þessu ári, eða rúmlega 1.6 milljónir.