Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, lætur af störfum nú um mánaðarmótin. Þetta staðfesti hann í samtali við Eyjuna:
„Ég ákvað þetta sjálfur, ég er ekkert að yngjast og heilsan eftir því. Þegar aldurinn færist yfir þá lagast þetta nú ekkert,“
sagði Gunnar, sem hefur glímt við heilsubrest undanfarin ár. Er dagurinn í dag hans síðasti vinnudagur. Mun Guðrún Sif Guðbrandsdóttir, deildarstjóri stjórnsýslu- og fjármála og staðgengill bæjarstjóra, taka við starfi bæjarstjóra í fjarveru Gunnars. Þá verður starfslokasamningur Gunnars lagður fyrir bæjarráð í næstu viku.
Að sögn Ingibjargar G. Jónsdóttur, forseta bæjarstjórnar, býst hún við að auglýst verði eftir nýjum bæjarstjóra á næstunni:
„Að öllum líkindum já, það hafa ekki verið teknar ákvarðanir um það ennþá. Það var gert samkomulag um starfslok, þetta er alveg eðlileg framganga,“
sagði Ingibjörg, en Gunnar varð 72 ára þann 30. september.
Hann var ráðinn bæjarstjóri Fjallabyggðar árið 2015 og var endurráðinn í fyrra. Hann var áður bæjarstjóri í Kópavogi og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Hann gaf út ævisögu sína árið 2017, sem Orri Páll Ormarsson reit.
Gunnar er þekktur fyrir djúpa rödd sína og slagorðið „Það er gott að búa í Kópavogi“ en á vef Alþingis hefur verið settur inn sérstakur tengill þar sem boðið er upp á raddsýnishorn.