Þorsteinn Már Baldvinsson steig til hliðar sem forstjóri Samherja í kjölfar birtingu Samherjaskjalanna. Tók Björgólfur Jóhannsson við tímabundið meðan málið yrði rannsakað af lögfræðistofunni Wikborg Rein.
Samkvæmt heimasíðu Samherja er Þorsteinn Már hinsvegar ennþá titlaður forstjóri fyrirtækisins, samkvæmt lista yfir starfsmenn fyrirtækisins. Nafn Björgólfs er þar hvergi að finna.
Eflaust á aðeins eftir að uppfæra heimasíðuna hjá fyrirtækinu, en ekki er ólíklegt að það hafi gleymst í öllu fárinu sem fylgdi í kjölfar þess að upplýst var um vafasama viðskiptahætti Samherja.
Í bókinni Ekkert að fela – Á slóð Samherja í Afríku, eftir þá Helga Seljan, Aðalstein Kjartansson og Stefán Aðalstein Drengsson, er fjallað nánar um Samherjamálið og starfsemi fyrirtækisins í Afríku.
Í bókinni er sagt frá því að engin raunveruleg framkvæmdastjórn hafi verið hjá fyrirtækinu, þar sem Þorsteinn Már, forstjóri og stór eigandi félagsins, héldi um alla tauma þar sjálfur og væri næstum því einskonar einráður í fyrirtækinu. Er þetta byggt á úttekt hollensks sérfræðings hjá endurskoðendafyrirtækinu KPMG á starfsemi Samherja árið 2014, sem talar um „flókið innanhúss hagkerfi“ Samherja, sem starfað hafi víða um heim.
Er Þorsteinn sagður einráður í fyrirtækinu, hann sé eini framkvæmdastjórinn.
„Aðrir lykilstjórnendur, sem ekki eru starfsmenn Samherja beint, en stýra mismunandi sviðum innan Samherjasamstæðunnar, eru í beinu sambandi við forstjóra Samherja daglega. Forstjóri Samherja er lykilmaður í öllum viðskiptum fyrirtækisins og hefur bein afskipti af skipulagi veiða,“
segir í skýrslunni.
Sjá nánar: Samherji vildi eyða út athugasemdum í skýrslu KPMG – Þorsteinn Már sagður einráður