Ágjöf í ferðaþjónustu hefur leitt til samdráttar í útflutningstekjum greinarinnar og minni afgangs af þjónustuviðskiptum það sem af er ári en á sama tíma í fyrra, samkvæmt Korni Íslandsbanka.
Ferðaþjónusta skilar þó ennþá jafnvirði nærri fjögurra af hverjum tíu krónum í gjaldeyristekjum þjóðarbúsins og ríður baggamuninn um að talsverður afgangur mun væntanlega reynast áfram af utanríkisviðskiptum.
Samkvæmt nýlegum tölum frá Hagstofu nam afgangur af þjónustujöfnuði 101 milljarði króna á þriðja fjórðungi ársins. Það er 22 mö.kr. minni afgangur en í sama fjórðungi fyrir ári og liggur munurinn að langstærstum hluta í minni tekjum af ferðaþjónustu. Þannig skruppu útflutningstekjur af ferðaþjónustu saman um 4,6 ma.kr. á milli ára, en sá liður endurspeglar útgjöld erlendra ferðamanna meðan á dvöl þeirra hérlendis stendur. Snarpastur var þó samdrátturinn í tekjum af samgöngum og flutningum, en þar nam hann 18,3 mö.kr. sem jafngildir því að ríflega fimmtungi færri krónur hafi komið í kassa innlendra aðila vegna ferðalaga útlendinga í ár en á sama tíma í fyrra.