Eyjan fjallaði í morgun um ansi háðslegan leiðara Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, sem beindist sérstaklega að Ágústi Ólafi Ágústssyni, þingmanni Samfylkingarinnar. Sagði Davíð að Ágúst væri sérstök blaðsíða og að hann og faðir hans, Ágúst Einarsson, þyrftu á sérfræði – og áfallahjálp að halda þar sem Ágúst hefði eflaust átt erfiða æsku.
Ágúst svarar þessu á Facebook í dag:
„Í dag fæ ég afar sérkennilega umfjöllun frá Davíð Oddssyni í leiðara Morgunblaðsins. Þar er fjallað um fjölskyldu mína og ég uppnefndur sérstök blaðsíða. Við keyptan ritstjóra vil ég segja. Það er betra að vera sérstök blaðsíða sem tekur á lélegum viðbrögðum ríkisstjórnarinnar í Samherjamálinu en að vera lélegur pappír sem er ætlað að afvegaleiða þá mikilvægu umræðu.“
Ágúst bætir við að skrif Davíðs séu lágkúruleg:
„Gamla aðferðin við að nota síður Moggans til að þyrla upp ryki og standa í óbeinum hótunum með því að draga fjölskyldur fólks inn í mál, virkar ekki jafn vel og áður. Það er samt jafn lágkúrulegt og áður.“
Sjá einnig: Davíð segir Ágúst þurfa sérfræðiaðstoð:„Mætti auðveldlega ætla að hann hefði átt erfiða æsku“