fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Eyjan

Um dómsmorðið

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 25. nóvember 2019 08:33

Jón Steinar Gunnlaugsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Steinar Gunnlaugsson ritar:

Hinn 22. nóvember s.l. var ég í Landsrétti sýknaður af kröfum Benedikts Bogasonar hæstaréttardómara í máli sem hann höfðaði vegna ummæla minna í bókinni „Með lognið í fangið“. Ummælin, sem hann beindi skeytum sínum að, var að finna í kafla bókarinnar sem bar heitið „Dómsmorð“ og fjallaði um dóm Hæstaréttar 17. febrúar 2012 í máli ákæruvaldsins gegn Baldri Guðlaugssyni. Ég hygg að þetta hafi verið fyrsti dómur réttarins í sakamáli sem tengdist hruninu haustið 2008. Var Baldur með dómnum sakfelldur fyrir innherjasvik og dæmdur í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi. Benedikt átti sæti í málinu og tók þátt í að sakfella ákærða.

Í bókinni gagnrýndi ég þennan dóm, notaði um hann orðið „dómsmorð“. Sagði ég að felldur hefði verið dómur sem dómararnir vissu eða að minnsta kosti hlutu að vita að ekki stóðst hlutlausa lagaframkvæmd. Á 23 blaðsíðum bókarinnar fór ég yfir annmarkana sem voru á þessum dómi og rökstuddi mál mitt nákvæmlega. Undir lokin var nefnt hvaða dómarar Hæstaréttar hefðu staðið að dóminum en Benedikt var einn þeirra. Að öðru leyti var ekkert vikið sérstaklega að þessum dómara í umfjöllun minni. Þetta dugði þessum lögvísindamanni til að höfða meiðyrðamál á hendur mér. Því lauk núna í Landsrétti með þeirri óhjákvæmilegu niðurstöðu að ég var sýknaður af kröfum hans. Málsóknin reynist hafa opinberað ótrúlegt þekkingarleysi dómarans á málum sem varða frelsi til tjáningar. Hann situr sem dómari við æðsta dómstól þjóðarinnar. Það hlýtur að setja að mönnum hroll.

Hrein fjarstæða

Landsréttur telur í forsendum sínum að ég hafi hoggið nærri mörkum tjáningarfrelsis míns með þessum kafla bókarinnar og segir að efni ummæla minna gefi tilefni til að vekja verulegar efasemdir um hvort ég hafi farið út fyrir þau. Þessi orð eru að mínum dómi hrein fjarstæða. Tel ég af því tilefni ástæðu til að telja upp í stuttu máli í hverju gagnrýni mín á dóminn var fólgin, því um það hefur hvorki Benedikt né aðrir viljað fjalla, og þá ekki heldur Landsrétturinn.

  1. Ég taldi að Hæstiréttur hefði legið undir of miklu álagi og því ekki getað fjallað um málið á þann hátt sem nauðsynlegt var.

  2. Þrýstingur hefði verið á dómstólinn um að sakfella í hrunmálum. Þetta var fyrsta málið úr þeim flokki sem dómstóllinn fékk til meðferðar.

  3. Formaður dómsins hafi verið vanhæfur vegna hlutafjáreignar sinnar í Landsbankanum.

  4. Ákærði hefði ekki búið yfir innherjaupplýsingum.

  5. Landsbankinn hefði ekki sinnt tilkynningaskyldu sinni ef rétt teldist að um innherjaupplýsingar hefði verið að ræða. Ákærða hefði því óbeint verið refsað fyrir brot bankans.

  6. Fyrir lá að Fjármálaeftirlitið hefði vitað allt sem ákærði vissi, en ekki talið ástæðu til að meta upplýsingarnar sem innherjaupplýsingar og birta þær sem slíkar, eins og þá hefði verið skylt að gera.

  7. Ákærði var dæmdur fyrir annað en ákært var fyrir. Munurinn skipti sköpum um vörn hans.

  8. Samantekt um efni dómsins var breytt á heimasíðu Hæstaréttar eftir að rétturinn hafði áttað sig á að sakfellingin í dóminum stóðst ekki. Ég birti báðar útgáfurnar í bók minni.

  9. Brotið var gegn reglunni um að ekki mætti ljúka máli tvisvar (ne bis in idem).

Ítarlegan rökstuðning var að finna í bók minni um öll þessi atriði.

Með því að segja að dómararnir hafi að minnsta kosti mátt vita um þessi atriði þegar þeir kváðu upp dóminn var ég í reynd að hlífa þeim við því að halda því fram að þeir hafi ekki haft næga lögfræðiþekkingu til að dæma málið. Ásökun um slíkt hefði í reynd verið mun alvarlegri fyrir þá.

Fór hvergi nærri mörkum til frjálsrar tjáningar

Það er hreinasta fjarstæða að ég hafi ekki mátt segja það sem ég sagði um þetta allt saman eða verið í því efni einhvers staðar nálægt þeim mörkum sem frelsi mitt til tjáningar naut. Þetta virðist vera sagt í dóminum til að búa til grundvöll til að hlífa formanni dómstólasýslunnar við að greiða mér kostnaðinn sem ég hafði af því að verja mig gegn þessum langsóttu sökum hans. Við blasir að hagsmuna- og kunningjatengslin við formanninn hafi valdið þessu. Þess vegna er dómurinn að hluta til dæmi um að íslenskir dómstólar bregðast stundum, þegar á reynir, skyldum sínum um að virða fullkomið hlutleysi í verkum sínum. Enginn annar íslenskur borgari hefði við sömu aðstæður notið þessara sætinda af borði dómaranna.

Ég skora á landsmenn, lögfræðinga sem aðra að láta ekki svona dóm hindra sig í að segja opinberlega það sem þeir vita sannast um verk dómstóla. Gagnrýni á verk þeirra er eina aðhaldið sem þeir fá.

Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Klappir og ICR í samstarf

Klappir og ICR í samstarf
Eyjan
Fyrir 1 viku

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“