Oddi Einarssyni var sagt upp sem framkvæmdastjóra kirkjuráðs í byrjun október, vegna „slæmra samskipta“ í garð verkefnastjóra fjármála sókna á Biskupsstofu. Kirkjuráð samþykkti einróma að segja upp samningi Odds á kirkjuráðsfundi þann 2. október. Lét Oddur af störfum þegar í stað.
Sagði samskiptastjóri Biskupsstofu af því tilefni að dónaskapur yrði ekki liðinn á vinnustaðnum og að kirkjan hefði ekki þolinmæði fyrir slæmum samskiptum.
Oddur, sem verður 67 ára í janúar, verður á launum hjá Kirkjumálasjóði út ráðningarsamning sinn, eða í 20 mánuði, þar til 30. júní 2021.
Fær hann full laun fyrir þrjá mánuði, sem eru 1.2 milljónir króna á mánuði. Afganginn af samningstímanum fær hann greidd grunnlaun, sem eru 950 þúsund á mánuði. Greiðslurnar munu ekki skerðast þó svo Oddur ráði sig í annað starf. Ber Oddi hinsvegar að skila fartölvu sem hann hafði til umráða. RÚV greinir frá.
Er þetta annar starfslokasamningurinn sem Biskupsstofa gerir á þremur árum, en Ellisif Tinna Víðisdóttir hætti eftir deilur við biskup hvar vinnustaðasálfræðingur var kallaður til, án árangurs. Fékk Ellisif full laun í 12 mánuði, með yfirvinnu og orlofi sem og eignaðist fartölvu og síma er hún hafði afnot af.