fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Eyjan

Atli gerði allt vitlaust í Silfrinu – Sjáðu ræðu hans frá Austurvelli –„Land hversdagssiðleysis – Fúskkúltúr“

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 25. nóvember 2019 16:00

Atli Þór á útifundinum. Mynd-Stjórnarskrárfélagið - Lárus Ýmir Óskarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Atli Þór Fanndal blaðamaður og fyrrverandi ráðgjafi Pírata, kom eins og stormsveipur inn í Silfrið á RÚV í gær. Er óhætt að segja að hann hafi valdið usla, en Egill Helgason átti fullt í fangi með að hemja Atla, sem fór mikinn um meinta spillingu Sjálfstæðisflokksins og Jóns Gunnarssonar, sem vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Atli hafði áður haldið mikla eldræðu á Austurvelli í tilefni af mótmælasamkomu Stjórnarskrárfélagsins vegna Samherjamálsins, þar sem afsagnar Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra var krafist.

Sjá einnig: Sauð upp úr í Silfrinu – Atli afhjúpaði Jón í beinni – „Hann notaði taktík sem er kennd í stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins“

Hverdagssiðleysi og fúsk-kúltúr

Í ræðunni segir Atli Þór að græðgi sé ekki góð, „Þótt Hólmsteinar þessa lands hafi sannfært okkur um það.“

Hann nefnir einnig að hér á landi sé stundað hversdagssiðleysi sem sé afleiðing fúskkúltúrs:

„Þannig að það er verið að skapa hér land hversdagssiðleysis. Þar sem einhverjir fótgönguliðar siðleysingja og ótrúlega kúltúrslausrar auðvaldsstéttar, í bland við nautheimska og ólæsa stjórnmálastétt, reyna að endurskilgreina raunveruleika okkar. Fúskkúltúr. Þau eru af mikilli natni að föndra upp einhverja furðudraumsýn um að í 370.000 manna samfélagi á jaðri hins byggilega eigi að búa til einhverskonar hugmyndafræðilega hreint markaðskerfi. Þar sem við tökum allt saman, nema útgerðarmennina, og setjum á eðlilegan markað.“

Ræðu Atla má lesa hér að neðan:

Samherjamálið. Það gat aldrei neitt annað gerst. Við erum búin að eyða síðustu áratugum – og þegar ég segi við, þá á ég auðvitað við stjórnmálastéttina okkar og fólk sem telur sig til hinna talandi stétta. Það gat aldrei annað gerst, fyrst við eyddum áratugum í dekur við auðstéttina. Fyrst við eyddum áratugum í það að hlusta á fólk sem telur það siðferðislega skyldu samfélagsins að dekra svolítið vel við útgerðarmennina okkar þannig að þeir hafi það svolítið gott. Það gat ekki annað gerst fyrst við erum tilbúin að leggja hvað sem er að veði. Fyrst enginn kostnaður er of hár til þess að fámennur hópur útgerðarmanna hafi það gott.

Og til að það sé alveg á hreinu hvað þetta er fámennur hópur útgerðarmanna, þá er það 90 manna hópur sem fær 70% af auðlindarentu íslenska fiskistofnsins. Þetta eru tuttugu fyrirtæki.

Í þessu verkefni, að búa til lénsherrakerfi ofurvalds af mikilli natni, hefur allt verið lagt að veði. Hér eru tvær yngstu kynslóðirnar okkar sem eiga engan möguleika á húsnæði. Við búum við heilbrigðiskerfi sem er svo þjakað af niðurskurði að við sjáum ekki fram á að geta bætt það. Þrátt fyrir að 85.000 manns hafi á sínum tíma skrifað undir söfnun og áskorun gegn þeim veruleika. Hver einasti flokkur. Hver einasti flokkur. Hver einasti þingmaður. Hver einasti stjórnmálamaður sem situr þarna komst inn á því loforði að standa ekki í vegi fyrir því að sótt yrði eðlileg renta. Að ríkið yrði fjármagnað með eðlilegum hætti, þannig að hér væri hægt að byggja upp velferðarkerfi. Þar á meðal heilbrigðiskerfi.

Við búum við það ítrekað að menn lofa og brjóta loforðin. Þröskuldur þess að ljúga í íslenskum stjórnmálum er svo lágur að menn eru hættir að taka eftir því að þeir geri það.

Þannig að það er verið að skapa hér land hversdagssiðleysis. Þar sem einhverjir fótgönguliðar siðleysingja og ótrúlega kúltúrslausrar auðvaldsstéttar, í bland við nautheimska og ólæsa stjórnmálastétt, reyna að endurskilgreina raunveruleika okkar. Fúskkúltúr. Þau eru af mikilli natni að föndra upp einhverja furðudraumsýn um að í 370.000 manna samfélagi á jaðri hins byggilega eigi að búa til einhverskonar hugmyndafræðilega hreint markaðskerfi. Þar sem við tökum allt saman, nema útgerðarmennina, og setjum á eðlilegan markað.

Þannig að í því umhverfi sem við höfum búið við undanfarna áratugi: Hvernig gat annað gerst en að þessir menn færu til annarra ríkja og gætu með engum hætti keppt sem einhverskonar eðlilegir kapítalistar? Eins og fólk sem rekur pylsusjoppur eða tölvuviðgerðarverkstæði. Þessir menn hafa aldrei búið við það að þurfa að reka fyrirtæki með einhverjum eðlilegum hætti.

Að sjálfsögðu fara þeir ekki til Namibíu eða Marokkó eða Grænlands og hegða sér með einhverjum eðlilegum hætti.

Ísland er í dag útflutningsaðili auðlindaböls. Okkur tókst þetta með auðlind eins og fiskinn, sem er þó í eðli sínu með innbyggða tekjudreifingu vegna þess að það er bara mjög flókið að ná í hana. Það er mannaflsfrekt að ná í hana. Það þarf mikla innviði til þess að ná í auðlindina. Það beinlínis þarf bara að sleppa því að búa til kerfi þar sem þú föndrar upp auðlindaböl eins og í olíu- og demantsnámum þar sem þarf bara að grafa holu og það rignir upp peningum. Þetta tókst okkur samt.

Og fyrir þetta höfum við verið að hrósa okkur út um allan heim. Þegar ég segi við, þá á ég að sjálfsögðu við Hólmsteina þessa lands og aðra leiguliða. Við erum búin að vera að hrósa okkur fyrir að hafa tekist með svo ótrúlegum hætti að ýta undir þvílíka verðmætasköpun í sjávarútvegi að annað eins sjáist ekki. Það er sagt þrátt fyrir að t.d. Danmörk, sem er nú ekki þekkt fyrir að vera nein sérstök sjávarútvegsþjóð, fái margfalt meiri verðmæti á hvert kíló en Ísland. Það er þrátt fyrir að markaðsverð í Noregi, þar sem íslenskir útgerðarmenn tala endalaust um það hvað Norskur sjávarútvegur sé svo hallærislegur og með allskonar byggðapólitík og veseni, skili margfalt meiri verðmætum til landsins en íslenska kerfið.

Það er búið að sannfæra stóran hóp fólks um að það sé siðferðislega rétt að við mokum undir Þorstein Má og co. Þorsteinn Már og Samherji eru ekki rotin epli. Þeir er afleiðing af þessu græðgiskerfi. Allir sem vilja sjá og allir sem nenna að lesa eitthvað flóknara en tvít – hugmynd sem kannski þarf heila bók – skilja að það þarf alltaf að bregðast við þessu og ýta með einhverjum krafti undir eðlilegt jafnræði í samfélaginu.

Við skattleggjum ekki bara skrilljónamæringa til þess að fjármagna fína hluti eins skóla og heilbrigðiskerfi. Við skattleggjum þá líka til þess að sjá til þess að þeir eignist ekki gjörsamlega allt. Gleypi ekki menningarlífið. Gleypi ekki siðmenninguna. Eignist ekki fjölmiðlana. Til að þeir rústi ekki húsnæðiskerfinu og setji ekki landið í þrot. Það er ástæðan. Það eru siðferðisástæður, efnahagsástæður og pragmatískar ástæður fyrir því að við grípum inn. Það er vegna þess að græðgin verður aldrei mettuð.

Gæðgi er ekki góð. Þótt Hólmsteinar þessa lands hafi sannfært okkur um það. Þótt fjármálaráðherra þess lands sé alinn upp við það – af ótrúlegu kúltúrsleysi – að það sé einhverskonar samhengi milli þess að vera gráðugur og metnaðarfullur, þá er græðgi ekki góð.

Metnaður og samkennd er það sem við viljum.

Og svo segja þessir menn – sem eru gjörsamlega búnir að gefast upp á því að hugsa heila hugsun, og bera svo litla virðingu fyrir okkur að þeir senda Elliða og Sigríði Andersen í sjónvarpssettið til þess að leggja fyrir okkur einhvers konar siðferðislega ramma, eins og þessir gjörspilltu fúskarar geti sett okkur einhverjar línur. Svo segja þessir menn – að við verðum nú að taka þessu svolítið rólega. Og að það megi nú ekki dæma. Og það má alls ekki. Alls, alls ekki, sjá eitthvað samhengi í að flett hafi verið ofan af því að menn hafa verið að svindla hérna á sjómönnum með því að lækka hlutinn þeirra. Það má alls ekki sjá neitt samhengi milli þess að aldrei náðist að rukka neina almennilega rentu fyrir auðlindina. Það má alls ekki sjá neitt samhengi milli þess að Morgunblaðið fari ótrúlega mjúkum höndum um Eyþór Arnalds.

Og að sjálfsögðu er það ekki mútur að taka við 300 milljóna gjöf frá Samherja. Og hvernig átti hann að vita að féð kæmi beinlínis úr félagi sem fer með það hlutverk að múta fólki. Það sem mun gerast núna og er þegar farið að gerast, er að ólíkt öðrum spillingarmálum, þar sem fótgönguliðar valdsins segja að nú skulum við slappa af en skoða aðeins leikreglurnar, þá allt í einu í þessu máli eru leikreglurnar fullkomlega skýrar og allir hafa fullkomið traust til þess að hér séu algjörlega reglur sem nægja til þess að halda utan um málið.

En við skulum alls ekki skoða þetta í pólitísku samhengi.

Og svo spyrja menn, fyrst enginn fylgir boðorðunum tíu, vaða vit er þá í því að setja boðorðin tuttugu? Hvaða máli skiptir þá að við setjum nýja stjórnarskrá. Ég ætla bara að viðurkenna það að það var alveg tími þar sem ég var mjög ginnkeyptur fyrir þessu. Málin eru ekkert mjög flókin. Það er enginn flokkur sem komst á þing í kosningunum eftir hrun – ekki einu sinni Sjálfstæðisflokkurinn – sem lofaði ekki öðru en að þau væru tilbúin til að skoða endurskoðun á stjórnarskránni. Sjálfstæðisflokkurinn var tilbúinn að skoða endurskoðun en vildi ekki kollvarpa henni. Allir aðrir lofuðu nýrri stjórnarskrá.

Einn kóngurinn. Hann lofað nú mestu, og hann heitir Sigmundur Davíð. Og það sveik hann.

Áttatíu og fimm þúsund manns skrifuðu undir loforð um að heilbrigðismálin yrðu forgangsatriði. Enginn þingmaður, ekki einn einasti, er á þingi nema í skjóli þess loforðs. Ekkert gerist.

Svo lofaði einn stjórnarflokkurinn því að hann myndi aldrei færa atkvæði yfir til Bjarna Ben. Það væri sko mjög öruggt að kjósa þess fínu Katrínu Jakobsdóttur. Hún myndi sko ekki færa atkvæði frá almenningi yfir til valdsins en það gerðist samt sem áður.

Þess vegna skiptir máli að við fáum nýja stjórnarskrá. Það skiptir máli vegna þess að almenningur er búinn að segja að hann vilji það. Þúsundir manns! Við kusum um þetta og það er fúsk og það er kúltúrsleysi á sturlunarstigi að stjórnmálamenn segi bara: “Tja, skiptir þetta máli? Kosningin var bara ráðgefandi.”

Við erum að ganga í gegnum furðulegustu tíma á friðartímum í Evrópu vegna ráðgefandi atkvæðagræðslu um veru Bretlands í Evrópusambandinu. Þetta er eitt klikkaðasta verkefni sjálfsskaða sem nokkurt land hefur farið í en það dettur engum í hug í stjórnmálastétt þeirra að hægt sé bara að sópa atkvæðagreiðslunni út af borði vegna þess að tæknilega séð þurfi svo sem ekkert að hlusta á hana.

Kæru félagar. Takk fyrir komuna.

Nú vil ég að við hugum að því hvernig við vinnum þennan slag. Samherjamálið dregur fram hverskonar ógeðfellt lénsherrakerfi kvótakerfið er.

Samherjamálið dregur fram að við höfum því miður mörg hver, sem ólumst upp í höfuðborginni, horft framhjá því hvernig þessir menn hafa rústað smáum byggðum. Við skuldum því fólki afsökunarbeiðni og stuðning héðan.

Samherjamálið dregur fram að ef við ætlum að ná einhverjum breytingum, þá förum við og tökum yfir stjórnmálaflokkana og breytum þeim. Þeir eru vel fjármagnaðir og það leyfir okkur að skipuleggja okkur til baráttu.

Nú rekum við okkar fulltrúa sem hafa sagst tilbúnir til breytinga í vinnuna. Við viljum plan. Við viljum að skrifstofurnar mæti og að starfsfólkið búi til eitthvað plan. Við viljum að stjórnmálamennirnir séu að gera eitthvað annað en að skrifa Facebook-statusa.

Vegna þess að óvinurinn er skipulagður. Með skýra híarkíu. Hann er vel fjármagnaður og veit nákvæmlega hvað hann vill. Þannig að eitthvað dundur, þar sem við ætlum öll að vera rosalega krúttleg og það verði rosalega gaman, það hefur hingað til ekki virkað.

Nú förum við og tökum yfir stjórnmálaflokkana. Og við vinnum næstu kosningar. Við tökum þetta kerfi í gegn og setjum á nýja stjórnarskrá.

Takk fyrir kæru félagar.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Fjölmargar þjóðir með meiri – miklu meiri – kaupmátt en við – það er von að Bjarni Ben sé ánægður og stoltur

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Fjölmargar þjóðir með meiri – miklu meiri – kaupmátt en við – það er von að Bjarni Ben sé ánægður og stoltur