Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri hjá Símanum, fagnar svartri skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi RÚV sem kom út í morgun.
Segir hann það staðfestingu á því sem hann hafi bent á í mörg ár:
„Ríkisendurskoðun staðfestir það sem ég hef hrópað á torgum um árabil, að stjórn og stjórnendur Ríkisútvarpsins brjóti lög sérhvern dag.“
Í skýrslunni kemur fram að RÚV hafi ekki farið að samkeppnislögum, en RÚV bar að stofna dótturfélög um þann rekstur sem ekki féll undir fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu, en gerði ekki. Segir í skýrslunni að RÚV hafi þar með beitt sér með ólögmætum hætti á samkeppnismarkaði.
Þá er einnig gerð krafa um skýrari aðgreiningu í bókhaldinu og að gengið verði lengra í að gera formlega arðsemiskröfu til samkeppnisrekstrar og það sé ófrávíkjanleg krafa að bókhaldið sé gegnsætt.
Þá er skuldastaða RÚV sögð mikil og greiðslugeta veik.
RÚV hefur brugðist við skýrslunni. Í tilkynningu segir:
„Skýrslan staðfestir margt sem stjórn og stjórnendur RÚV hafa áður vakið athygli á og undirstrikar þann mikla árangur sem orðið hefur af aðgerðum undanfarinna ára til að styrkja rekstur RÚV og efla almannaþjónustuhlutverk þess.“