Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs – og landbúnaðarráðherra, hefur öðrum ráðherrum fremur dregist inn í Samherjamálið sökum vináttu sinnar við Þorstein Má Baldvinsson, fyrrverandi forstjóra Samherja. hafa þingmenn kallað eftir afsögn, eða að hann stigi til hliðar meðan að málið sé rannsakað.
Kristján skrifar í Morgunblaðið í dag, hvar hann nefnir að auka þurfi traust á íslensku atvinnulífi og leiðin til þess sé aukið gagnsæi í rekstri stærri fyrirtækja. Þess vegna hyggist íslensk stjórnvöld fara í samstarf við Matvæla – og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna(FAO).
Í greininni segist Kristján að hann muni hafa frumkvæði að úttekt á viðskiptaháttum útgerða í þróunarlöndum og tillögur verði settar fram gegn spillingu, mútum og peningaþvætti:
„Ég mun hafa frumkvæði að því að Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) vinni úttekt á viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir þ.ám. í þróunarlöndum. Á grundvelli úttektarinnar vinni FAO tillögur til úrbóta í samvinnu við aðrar alþjóðlegar stofnanir sem vinna að heilbrigðum viðskiptaháttum, gegn spillingu, mútum og peningaþvætti. Ráðuneyti mitt hefur þegar átt í samskiptum við forsvarsfólk FAO um slíkt samstarf og hefur þessu frumkvæði verið tekið með jákvæðum hætti.“
Kristján segir að Fiskistofa ráði ekki við að framfylgja lögunum:
„Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu frá því í janúar á þessu ári kemur fram að ekki verði séð að Fiskistofa kanni með nægjanlega tryggum hætti hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum sé í samræmi við það hámark sem er skilgreint í lögum um stjórn fiskveiða. Því þurfi að endurskoða 13. og 14. gr. laganna svo reglur um hámarksaflahlutdeild verði skýrari.
Í mars 2019 skipaði ég verkefnisstjórn undir forystu Sigurðar Þórðarsonar, fyrrverandi ríkisendurskoðanda, til að koma með tillögur um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni. Nefndinni var m.a. falið að bregðast við fyrrgreindri ábendingu Ríkisendurskoðunar. Í kjölfar umræðu síðustu daga hef ég nú óskað eftir því við nefndina að hún skili tillögum þar að lútandi fyrir 1. janúar nk. Þá er að vænta tillagna frá nefndinni á næstu vikum um bætt eftirlit með fiskveiðum og með vigtun sjávarafla.“
Að lokum nefnir Kristján Þór að orðspor Íslands sé dýrmætt, þar sem miklir hagsmunir séu í húfi:
„Ég bind vonir við að þau viðbrögð ríkisstjórnarinnar sem birtast í þessum almennu aðgerðum, til viðbótar við þær miklu úrbætur sem gerðar hafa verið á undanförum árum, muni leiða til þess að orðspor Íslands verði ekki fyrir miklu tjóni. Þar eru miklir hagsmunir í húfi fyrir íslenskt samfélag, m.a. í ljósi þess að rúmlega 98% af íslensku sjávarfangi eru flutt á erlendan markað. Það er því kappsmál fyrir alla hlutaðeigandi að sameinast um það verkefni.“
Sjá einnig: Sjáðu hvernig ríkisstjórnin ætlar að bregðast við Samherjamálinu vegna „hugsanlegs orðsporshnekkis“