fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Eyjan

Borgarstjóri bölvar Mogganum og segir Eyþór tvísaga: „Stendur Eyþór ennþá í skuld við Samherja ?“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 19. nóvember 2019 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, skrifar opna færslu á Facebook í dag hvar hann krefst svara frá Eyþóri Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins, og Samherja, vegna eignarhlutar Eyþórs í Morgunblaðinu sem var að hluta fjármagnaður af Samherja. Hefur helmingshlutur þess láns þegar verið afskrifaður í bókum Samherja.

Borgarstjóri segir ótal spurningum ósvarað:

 „Af hverju fór Eyþór með hlut Samherja í Morgunblaðinu ef Eyþór tók enga áhættu af viðskiptunum, eins og hann segir nú? Er búið þannig um málið að Eyþóri er í raun ómögulegt að selja hlutinn líkt og hann lofaði fyrir tveimur árum og verður því bundinn Samherja eins lengi og Samherja sýnist? Hvenær ætlar Eyþór að gera fulla grein fyrir tengslum sínum við Samherja? Voru afskriftir Samherja 2018 gjöf eða eftirgjöf skuldar til kjörins fulltrúa og er raunverulegur munur á því? Stendur Eyþór ennþá í skuld við Samherja vegna þessa máls? Eru frekari skuldir við Samherja eða aðra út af öðrum viðskiptum? Af hverju er borið við trúnaði um þessi mál? Hvar liggur trúnaður Eyþórs: við Samherja eða borgarbúa?“

spyr Dagur og bætir við að það sé lágmarkskrafa að Eyþór og Samherji geri grein fyrir málinu:

„Varla þarf að taka fram að í gegnum þessi tvö ár og síðustu viku hefur oddviti Sjálfstæðisflokksins ekki séð ástæðu til að geta um eignarhald sitt í Morgunblaðinu eða margflókin viðskipti sín við Samherja í hagsmunaskráningu kjörinna fulltrúa hjá borginni./

Eins og blasir við rekst hvað á annað horn í skýringum sem settar hafa verið fram á viðskiptum Samherja og oddvita Sjálfstæðisflokksins á eignarhlut í Morgunblaðinu. Og ótal spurningum er ósvarað. Það gengur ekki. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að Eyþór Arnalds og Samherji geri hreint fyrir sínum dyrum.“

Misræmi í frásögn Eyþórs

Telur borgarstjóri upp ýmis ummæli Eyþórs og fréttir af málinu, sem gefa til kynna að einhverskonar maðkur sé í mysunni, en hann segir frásögn Eyþórs hafa breyst eftir að Samherjamálið komst upp:

  1. Fyrir tveimur árum sagði Eyþór í samtali við Rúv þetta vera „alvöru, sjálfstæð viðskipti“ en verðið trúnaðarmál og að hann væri ekki á nokkurn hátt skuldbundinn Samherja. Hann lofaði reyndar einnig að selja hlutinn vegna þátttöku sinnar í stjórnmálum en ekkert hefur orðið af því.
  2. Þvert á fyrstu yfirlýsingar Eyþórs opinberaði Stundin hins vegar fyrr í haust að verulegar afskriftir hefðu orðið í reikningum félaga í eigu Samherja í tengslum við þessi viðskipti (https://stundin.is/grein/9756/). Eyþór lét þá svo ummælt að hann hefði greitt fyrir hlutinn en síðar fært hann niður í bókum sínum – og að „enginn hefði gefið sér neitt“ (https://www.visir.is/g/2019191029978).
  3. Á föstudaginn – eftir birtingu Samherjaskjalanna – hafði sagan gjörbreyst aftur því þá sagði Eyþór í fréttum Stöðvar 2 að hann hefði aldrei verið í ábyrgðum því Samherji hefði lánað sér fyrir kaupunum með „seljendaláni“ og tekið alla áhættuna /https://www.visir.is/…/finnst-villandi-ad-vera-ordadur-vid-…).
  4. Á sunnudaginn sagði Indriði H. Þorláksson fyrrverandi ríkisskattstjóri þessa gjörninga óskiljanlega en gaf jafnframt það álit í viðtali á Hringbraut að miðað við þessar síðustu lýsingar Eyþórs væri um að ræða einhliða niðurfellingu skulda Samherja til Eyþórs. Þar með skuldaði Eyþór skatta vegna þeirra því niðurfellingin væri gjöf sem teldist til tekna í skilningi skattalaga. (http://www.hringbraut.is/…/fyrrverandi-rikisskattstjori-um-…)

Bölvar Mogganum

Borgarstjóri undrast fréttamat Morgunblaðsins, að fjalla um hringtorgaklúðrið hjá Reykjavíkurborg, mitt í Samherjastorminum og málum Eyþórs Arnalds:

„Í dag er vika frá því Samherjaskjölin birtu þjóðinni skýra sögu af ömurlegum viðskiptaháttum og arðráni Samherja í Namibíu. Morgunblaðið hefur brugðist við með því að fjalla meira um fjörutíu ára gamla biðstöð Strætó við Hagatorg. Ekkert hefur hins vegar verið fjallað um óskiljanleg „viðskipti“ Eyþórs Arnalds eiganda blaðsins og oddvita Sjálfstæðismanna í borgarstjórn sem hefur orðið margsaga um meint viðskipti sín við Samherja á hlut í sjálfu Morgunblaðinu./

Þetta er ekki nýtt mál í umræðunni. Raunar tveggja ára gamalt. Á þeim tíma hafa svörin verið fá og afar misvísandi. Birting Samherjaskjalanna sýna þessa gjörninga svo í alveg nýju ljósi. Á einni viku hafa fátækleg svör og undanbrögð komið í stað þess að Eyþór Arnalds leggi spilin á borðið og geri hreint fyrir sínum dyrum.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK