Fréttablaðið hefur eftir Sveini Þórarinssyni, sérfræðingi hjá hagfræðideild Landsbankans, að ef hleypa eigi fjárfestum að Keflavíkurflugvelli þá sé hér um nauðsynlegt skref að ræða.
„Það hefur alltaf verið ljóst að skiptingin innan Isavia, starfsemin í kringum Keflavíkurflugvöll er alveg sér á báti. Innanlandsflugið er niðurgreitt og enginn vilji meðal einkaaðila að fara þangað inn. Lofthelgin verður alltaf á hendi ríkisins. Þessi skerping á skiptingu Isavia er alveg gefin og alveg í takt við fyrri yfirlýsingar.“
Er haft eftir honum.
Frá áramótum mun Domavia sjá um innanlandsflugið. Burtséð frá eignarhaldinu er þessi skipting mjög skynsamleg að sögn Sveins.
„Það er alveg hægt að gera þessa skiptingu innan fyrirtækisins, en það er athyglisvert að setja þetta í dótturfélög. Með því skapast grundvöllur fyrir því að hleypa einkaaðilum að borðinu. Ef það er vilji stjórnvalda á hverjum tíma.“
Sagði hann og bætti við að ekki þurfi að stíga fleiri skref áður en hægt er að hleypa fjárfestum að borðinu, þetta snúist bara um pólitískan vilja.