Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG og formaður atvinnuveganefndar, segir við Morgunblaðið að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegráðherra, hafi verið boðaður á fund nefndarinnar til að svara spurningum um málefni Samherja. Var það Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður og fulltrúi VG í nefndinni, sem óskaði eftir nærveru Kristjáns á fundinum. Sagði Lilja við Morgunblaðið að full ástæða væri til þess að fá Kristján á fundinn.
Kristján Þór er æskuvinur Þorsteins Más Baldvinsson, forstjóra Samherja sem vikið hefur tímabundið vegna málsins. Hefur Kristján ávallt sagst ætla að segja sig frá málum er varða Samherja sem lendi á sínu borði, en það hefur enn ekki gerst að hans sögn. Það hefur verið gagnrýnt, þar sem Samherji er stærsta útgerðargfélag landsins, og því varði allar nánast allar ákvarðanir sem Kristján Þór taki um sjávarútvegskerfið, Samherja að einhverju leyti.
Orðspor Íslands hefur verið sagt í hættu eftir að Samherjamálið komst upp og er líklegt að það verði einnig rætt á fundi utanríkismálanefndar á föstudag, sem utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson hefur verið boðaður á.
„Samherjamálið hefur náttúrlega ekkert að gera með utanríkisráðherra en það verður alveg örugglega rætt,“
segir formaður nefndarinnar, Sigríður Á. Andersen við Morgunblaðið.