Fjallað var um Samherjamálið í Silfrinu á RÚV í dag. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, staldraði við þá framgöngu Þorsteins Más Baldvinssonar sem ávarpaði starfsfólk Samherja á Dalvík og sagði að umfjöllun fjölmiðla og umræða um mútumál Samherja væri árás á starfsfólkið. Sólveig Anna benti á að Þorsteinn Már hefði hagnast persónulega um ríflega 5 milljarða króna á síðasta ári og þótti henni undarlegt að hann teldi sig og starfsfólk Samherja vera á sama báti. „Ótrúlega absúrd og lágkúra að leyfa sér þetta framferði,“ sagði Sólveig Anna.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og lögmaður, hefur varpað því fram að eðlilegt sé að eignir Samherja séu frystar á meðan rannsókn skattarannsóknastjóra og héraðssaksóknara á málum fyrirtækisins færi fram. Egill Helgason spurði Helgu Völu hvort þetta væri nokkuð óábyrgt af henni. Helga Vala benti á að frysting eigna þýddi ekki lokun fyritækis eða vinnustöðvun. Frysting þýði að ekki sé hægt að selja eignir úr fyrirtækinu á meðan rannsókn fer fram. Benti Helga Vala á að þetta hafi verið gert við eignir meðlima hljómsveitarinnar Sigurrós á meðan rannsókn fór fram á skattamálum hljómsveitarinnar.
Sigríður Á. Andersen þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra sagði mikilvægt að stjórnmálamenn færu ekki fram úr sér í umræðunni enda hefðu orð þeirra meiri áhrif en kaffistofuspjall. Minnti Sigríður á að mál einstaklinga hefðu áður ratað inn í sali Alþingis með ömurlegum afleiðingum og væri þar skemmst að minnast Geirfinnsmálsins og Hafskipmálsins, þar sem alþingismenn hefðu jafnvel vegið að mönnum úr ræðustóli Alþingis án þess að viðkomandi gætu svarað fyrir sig.
Tekist var á um hvort Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra og fyrrverandi stjórnarformaður Samherja, gæti haldið embætti sínu. Helga Vala sagðist telja hann vera vanhæfan í öllum málum sem vörðuðu sjávarútveg í landinu.
Sólveig Anna gagnrýndi að Kristjón Þór hefði verið viðstaddur opnun nýs frystihúss Samherja á Dalvík tveimur dögum eftir að hann hefði sagt sig frá málum Samherja sem sjávarútsvegsráðherra. Sigríður Andersen taldi þessi ummæli lýsa misskilningi á því hvað felist í vanhæfi.