Pistlahöfundurinn þekkti Sirrý Hallgrímsdóttir segir í Bakþönkum Fréttablaðsins í dag að dómstólar þurfi að kveða upp úr um hvort Samherji hafi framið glæpi í Namibíu. Mútugreiðslur og aðrán séu ömurlegir glæpir sem þar til bær yfirvöld þurfi að rannsaka, það sé hins vegar ekki í verkahring stjórnmálamanna að stinga upp á refsingum skömmu eftir að greint hefur verið frá málum í fjölmiðlum.
Sirrý segir að viðbrögð Samfylkingarinnar í málinu hafi verið sérstaklega vanstillt. Hún skrifar:
„Stjórnmálamenn ættu að gæta sín við svona aðstæður. Dómstólar sjá um að kveða upp sekt eða sakleysi og það er t.d. ekki í verkahring alþingismanna að krefjast kyrrsetningar eigna eins og Samfylkingin gerði nokkrum klukkustundum eftir að málið kom fram.
Sá málflutningur Samfylkingarinnar að málið kalli á að fiskveiðistjórnunarkerfinu verði kollvarpað á Íslandi er fráleitur. Það er sjálfsagt að rökræða það kerfi en að meint lögbrot erlendis kalli á uppstokkun, lýsir veikri málefnastöðu. Enn síður leiða þessir mögulegu glæpir til þess að stjórnarskrá landsins sé hent á haugana.
En þessi popúlísku upphlaup Samfylkingarinnar eru skiljanleg, flokkurinn er aðallega að berjast við Pírata um hugmyndafræðilega forystu meðal vinstri manna í ójafnvægi.“
Sirrý segir síðan að nýlega hafi Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, farið með fleipur um veiðigjöld og það hafi komið í hlut Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata, að leiðrétta vitleysuna og kenna Ágústi lexíu:
„Ágúst Ólafur Ágústsson fullyrti um daginn að ríkisstjórnin hefði lækkað auðlindaskattinn á sjávarútveginn. Í ljós kom að þetta var ósatt hjá Ágústi og án efa vissi hann betur, en það hljómaði bara vel.
En svo blöskraði Pírötunum.
Björn Leví tók Ágúst á hné sér, flengdi hann opinberlega fyrir ósannindin og útskýrði fyrir honum að svona gerðu menn ekki. Vonandi lærðu Ágúst Ólafur og Samfylkingin Píratalexíuna sína.“