Sídlarvinnslan hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fréttir af meintum blekkingum framkvæmdastjórans eru bornar til baka og sagður misskilningur. Fréttablaðið greindi frá í morgun að framkvæmdastjórinn hefði leitað ráða hjá Samherja til að blekkja út kvóta á Grænlandi.
Tilkynningin er svohjóðandi:
Í morgun birtist frétt um að Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar hefði óskað eftir leiðbeiningum frá Samherja hinn 30. apríl árið 2014 varðandi það hvernig blekkja mætti Grænlendinga til að komast yfir veiðiheimildir og kvóta. Þessi frétt er algjörlega röng og í reyndinni merkilegt hvernig blaðamaður getur lesið þetta út úr þeim tölvupósti sem vitnað er til.
Síldarvinnslan hf. hefur átt í farsælu samstarfi við Grænlendinga frá árinu 2003 við rekstur útgerðarfyrirtækis. Árið 2012 festi stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Grænlands, Polar Seafood, kaup á meirihlutanum í útgerðarfyrirtækinu sem þá fékk nafnið Polar Pelagic, en Síldarvinnslan á þriðjungs hlut í því. Stjórn Polar Seafood hefur alla tíð sinnt öllum samskiptum fyrirtækisins við grænlensk stjórnvöld. Stjórnarformaður Polar Seafood er Henrik Leth en hann hefur lengi verið einn af helstu forystumönnum grænlensks sjávarútvegs.
Árið 2014 hafði Henrik Leth samband við Gunnþór Ingvason og tjáði honum að á Grænlandi væri í umræðunni að einhverjir áformuðu að koma upp fiskimjöls- og uppsjávarvinnslu í Ammasalik á austurströnd landsins. Taldi Henrik þessi áform mjög óraunhæf og áleit að þau væru sett fram í þeim tilgangi að ná kvóta hjá grænlenskum stjórnvöldum. Til þess að fá nánari upplýsingar um tæknileg málefni og kostnað við uppbyggingu eins og þessa leitaði hann til Gunnþórs Ingvasonar. Gunnþór vissi að Samherji hefði nýlega látið gera áætlanir um slíka uppbyggingu í Marokkó og einfaldast væri að skoða þær. Sendi hann Samherjamönnum tölvupóst þar sem hann bað um að fá þessar upplýsingar þó þær ættu við um uppbyggingu í Afríku. Þar með var málinu lokið að hans hálfu.
Henrik Leth segir eftirfarandi um þetta: „Ég leitaði til Gunnþórs um upplýsingar einfaldlega vegna þess að Síldarvinnslan hefur mikla reynslu og þekkingu á uppbyggingu og rekstri vinnslufyrirtækja. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér að hægt væri að búa til svona neikvæða frétt um greiðvikni hans í minn garð. Þetta er sorglegt dæmi um óvönduð vinnubrögð fjölmiðla.“
Af framansögðu má ljóst vera að orð Gunnþórs Ingvasonar í tölvupóstinum voru slitin úr samhengi í umræddri frétt. Síldarvinnslan harmar þann villandi og meiðandi málflutning sem birtist í fréttinni.