Eyjan greindi í gær frá því að Reykjavíkurborg hefði sett upp strætóskýli við Hagatorg, líkt og Morgunblaðið greindi frá upphaflega. Sökum þess brjóta vagnstjórar umferðarlögin í hvert skipti sem þeir hleypa inn, eða taka farþega um borð og geta átt von á sektum frá lögreglu þar sem óheimilt er að stöðva ökutæki í hringtorgi samkvæmt lögum.
Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir við Morgunblaðið í dag að ekki verði aðeins vagnstjórar Strætó sektaðir fyrir að stöðva á hringtorgi, heldur einnig þeir ökumenn sem í humátt koma á eftir strætó. Þannig að ef einn strætisvagn stoppar á Hagatorgi til að hleypa út farþega og fimm aðrir bílar eru fyrir aftan, verða ökumenn allra ökutækjanna sektaðir:
„Við munum fylgjast með þessu svæði sem öðrum. Lagagreinin er alveg skýr og engin undanþága heimil.“
Árni segir þetta ástand til komið vegna Reykjavíkurborgar, sem er veghaldari á svæðinu:
„Menn geta ekki leyft sér að búa til þær aðstæður að ökumenn fái sekt vegna þess að vagnstjórar þurfa að stoppa. Bílstjórinn fær jú sektina en ekki veghaldari sem í þessu tilviki er Reykjavíkurborg./
Þetta er merkt hringtorg og þarna má nú finna strætóstoppistöð, en samkvæmt umferðarlögum er óheimilt að stöðva ökutæki á hringtorgi. Við höfum þegar komið okkar ábendingum á framfæri við Reykjavíkurborg og er boltinn hjá þeim,“
Samkvæmt svörum Reykjavíkurborgar er Hagatorg ekki hefðbundið hringtorg. Einnig skoða borgaryfirvöld að breyta umferðarmerkingum til að staðfesta þá fullyrðingu og um leið gera framkvæmdir sínar löglegar fyrir strætó til að stoppa.
Í skýringum borgaryfirvalda má skilja að Hagatorg sé einstætt, engin önnur dæmi séu um slíkar aðstæður. Það er hinsvegar ekki rétt, því líkt og Morgunblaðið bendir á, er eitt strætóskýli við hringtorgið við höfuðstöðvar Morgunblaðsins í Hádegismóum.
Að sögn Árna, er það einnig óheimilt að stöðva ökutæki þar.
Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir við Morgunblaðið að eitthvað þurfi að gera í þessu, vagnstjórar séu settir í vonlausa stöðu:
„Ef lögreglan ætlar að fara að sekta þá þarf auðvitað að breyta þessu í samstarfi við Reykjavíkurborg því það er hún sem úthlutar okkur stoppistöðvum. Við viljum ekki vera valdir að lögbrotum, ekki frekar en aðrir.“
UPPFÆRT
Samkvæmt frétt mbl.is hefur Strætó ákveðið að loka þremur biðstöðvum vegna málsins og óvissu um lögmæti þeirra. Það eru biðstöðvarnar við Hagatorg, Hádegismóa og Vörðutorg í Áslandi.
Er haft eftir upplýsingafulltrúa Strætó að samráð verði haft við Reykjavíkurborg og Hafnarfjörð um nýja staðsetningu biðstöðvanna.