fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Eyjan

Fall Þorsteins Más – og aðeins um íslenska „djúpríkið“

Egill Helgason
Fimmtudaginn 14. nóvember 2019 18:23

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorsteinn Már Baldvinsson hefur frá upphafi verið aðalmaðurinn í Samherja. Bráðgreindur, metnaðarfullur, fljótur að hugsa, framsýnn, hann hefur byggt upp fyrirtæki sem má segja að sé býsna glæsilegt. Hefur starfsemi í mörgum löndum, flottan skipakost, þetta er nútíma sjávarútvegur, ólíkt sjávarútvegnum sem var stundaður hér á árum áður með sífelldum fréttum af tapi, lélegum skipakosti og slæmum aðbúnaði um borð.

Þetta verður ekki af Þorsteini tekið. Samherji hefur verið flaggskipið í íslenskri útgerð og hann sjálfur aðalmaðurinn. Og manni skilst að starfsfólk Samherja kvarti almennt ekki – þvert á móti að það sé býsna ánægt með forstjórann.

Þess vegna er fall hans svo hátt. Það virðist mega rekja til ýmissa hluta, kannski óseðjandi græðgi en líka oflætis, þess sem Grikkir til forna kölluðu hubris. Þorsteinn hefur alltaf verið sannfærður um rétt sinn til að stunda atvinnurekstur nákvæmlega eins og honum sýnist, að hann sé slíkur yfirburðamaður að um hann gildi varla sömu lögmál og aðra menn. Þetta þekkja fjölmiðlamenn sem hafa lent í stælum við hann – sá sem þetta skrifar þurfti eitt sinn að eiga símtal við Þorstein eftir að hann gekk á bak frægrar yfirlýsingar sinnar um að Guggan yrði alltaf gul. Þá var öskrað í símann – og fréttamaðurinn neyddist loks til að leggja á undir formælingunum.

Þorsteinn hefur haft gríðarleg völd á Íslandi – og margir hafa óttast hann. Menn hafa undanfarið gert því skóna, meira að segja á síðum Morgunblaðsins, að hér á Íslandi starfi einhvers konar „djúpríki“ sem stjórni bak við tjöldin.

En staðreyndin er sú að á Íslandi er bara til eitt djúpríki, og það eru útgerðarmenn, kvótaeigendur, með Þorstein Má sem innsta kopp í búri. Þeir geta haft hlutina nokkurn veginn eins og þeir vilja. Kerfinu sem þeir hafa haft öll tök á verður ekki haggað, og ég fæ ekki séð að það breytist. Á þessu varð reyndar smá rof þegar fjármálamenn tóku völdin frá því sirka 2002 til 2008, en þegar veldi þeirra hrundi stóðu sýndi það sig að útgerðin hélt áfram að ráða. En þar má auðvitað líka minna á að Þorsteinn Már var síðasti stjórnarformaður Glitnis – maðurinn sem þurfti að fara til ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans og tilkynna að bankinn væri gjaldþrota.

En Þorsteinn stóð það allt af sér og Samherji hefur vaxið og afkoman verið alveg stórkostleg fyrir eigendurna. Það leit meira að segja út fyrir að hann væri að sigra í glímu sinni við Seðlabankann – við sjáum hér að ofan frétt af Vísi þar sem Þorsteinn missir sig dálítið í oflætinu sem hann ræður stundum ekki við. Már Guðmundsson á leiðinni í fangelsi, stendur þarna. En nú kann þetta að eiga við um annan Má – Máa sjálfan eins og hann er kallaður fyrir norðan.

Það eru talsverð tíðindi að þessi hörkunagli skuli stíga úr forstjórastól fyrirtækisins sem hann hefur byggt upp af slíku harðfylgi vegna umfjöllunar Kveiks og Stundarinnar. Kannski mun hann halda áfram að hafa áhrif á reksturinn, hann er jú einn aðaleigandinn, en fyrir svo stoltan mann og sannfærðan um eigið ágæti er ábyggilega erfitt að kyngja þessu. Maður sér heldur ekki að hann eigi leið í forstjórastólinn aftur í bráð – rannsóknir á Namibíusvindlinu og málum sem því tengjast geta hæglega tekið mörg ár, fara ekki bara fram á Íslandi og í Namibíu heldur líka í Noregi. En eins og segir, dramb er falli næst.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?