„Það er eitt mál sem skyggir á önnur í dag,“ segir Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar í samtali við DV, og vísar þar í uppljóstrun Kveiks og Stundarinnar varðandi meintar mútugreiðslu og spillingu Samherja í Namibíu. Þorsteinn horfði á þátt Kveiks og hefur fylgst með fréttum af málinu og er hreint úr sagt brugðið.
„Ég er mjög sleginn yfir þessum tíðindum. Ég átti ekki von á þessum fréttum. Þetta er mjög ítarleg umfjöllun, greinilega byggð á mjög umfangsmiklum gögnum. Það eru settar fram þarna rökstuddar og mjög alvarlegar ásakanir um mútugreiðslur, sem brjóta þá með skýrum hættum gegn ákvæðum íslenskra hegningarlaga. Það er rétt að hafa í huga að það nær bæði til slíkra greiðslna hér á landi sem og greiðslur til erlendra, opinberra aðila til að ná fram ávinningi í alþjóðaviðskiptum. Þetta eru auðvitað grafalvarlegar ásakanir og þær hljóta að leiða hugann að ábyrgð stjórnenda hér heima fyrir,“ segir Þorsteinn. Hann segir eðlilegt að farið verið vandlega ofan í kjölinn á Samherjamálinu og hvort það teygi anga sína með einhverjum hætti hingað til lands.
„Það er mikill álitshnekkir fyrir Ísland þegar að svona alvarlegar ásakanir eru bornar á jafn stórt og umsvifamikið íslenskt fyrirtæki sem hefur verið hér í fararbroddi í viðskiptum á undanförnum áratugum. Það hlýtur að kalla á að rannsakað verði vandlega hvort hér sé um einsdæmi að ræða eða hvort það teygi anga sína víða. Hér er um að ræða ráðandi fyrirtæki í íslenskum sjávarútvegi sem byggir starfsemi sína á því kvótakerfi sem hefur veirð hér við líði um áratugaskeið. Þar af leiðandi hefur það verið í mjög miklum samskiptum við stjórnvöld um úthlutun veiðiheimilda. Það er rétt að það sé farið vandlega ofan í alla mögulega anga þetta máls. Auðvitað verður að fara varlega í einhverjum sleggjudómum en auðvitað er eðlilegt að eftir því sé kallað að þetta mál sé rannsakað algjörlega ofan í kjölinn og hvort það teygi anga sína hingað til lands. Ég trúi ekki öðru en að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því að slík rannsókn fari hér fram.“
Aðspurður hvort styrkir sem fjórflokkurinn svokallaði hefur þegið frá Samherja í kosningabaráttu geti gert ríkisstjórninni erfitt um vik að rannsaka mál Samherja segist Þorsteinn ekki telja svo vera.
Sjá einnig: Er þetta ástæðan fyrir þögn VG um Samherja? Ákveðnir flokkar í uppáhaldi hjá fyrirtækinu.
„Ég trúi því ekki að stjórnarflokkarnir láti slíkt vefjast fyrir sér með nokkrum hætti,“ segir Þorsteinn og bætir við að Samherjamálið velti upp mikilvægi þess að fjármál stjórnmálaflokka séu algjörlega gagnsæ.
„Þetta undirstrikar mikilvægi þess þegar kemur að fjármálum stjórnmálaflokka hér á landi að þar séu allar upplýsingar uppi á borðum um allan fjárstuðning sem stjórnmálaflokkar þiggja frá, sér í lagi frá lögaðilum. Ég tel að það sé fullt tilefni til að fara yfir slík ákvæði í ljósi fregna sem þessara. Meðal annars þegar rýnt er í ársreikninga stjórnmálaflokkanna þá er samkvæmt lögum skylt að upplýsa um beina styrki, bæði einstaklinga og lögaðila. Hins vegar er auglýsingastuðningur ekki sundurliðaður. Það er full ástæða til að kalla eftir enn betra gagnsæi þar þannig að það sé gagnsætt í starfi stjórnmálaflokkanna allur sá stuðningur sem stjórnmálaflokkar þiggja, sér í lagi frá fyrirtækjum. Það er mjög mikilvægt til að byggja upp traust á stjórnmálaflokka.
Varðandi viðbrögð þingheims alls segir Þorsteinn að Samherjaskjölin séu á allra vörum í dag.
„Ég held að fólk sé almennt mjög slegið, allavega þeir sem ég hef rætt við. Fólki er brugðið yfir þessu. Þetta er mikill álitshnekkir fyrir okkur öll og kemur beint ofan í fréttir af því að Ísland var sett á gráa listann vegna aðgerðarleysis gegn peningaþvætti. Það er fátt annað sem þingmenn ræða í dag eða næstu daga.“