fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Ríkið aðstoðar aðeins við kaup á nýjum íbúðum sem hafa aldrei verið dýrari – „Algjör svik verði það raunin“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 7. nóvember 2019 15:52

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Beðið er með eftirvæntingu eftir frumvarpi Ásmundar Einars Daðasonar, félagsmálaráðherra, er varðar úrræði fyrir þá sem ekki hafa getað keypt sér þak yfir höfuðið á síðustu árum. Þegar hafa verið kynntar 14 tillögur sem fela í sér ýmsar leiðir til að fyrstu kaupendur íbúða geti stigið þetta stóra skref, en þar á meðal eru svokölluð hlutdeildarlán.

Forsenda þess að fyrstu kaupendur fái þessa ríkisaðstoð, er að þeir kaupi litlar, nýjar íbúðir, sem eru innan við þriggja ára gamlar.

Þetta staðfesti Arnar Þór Sævarsson, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra við Eyjuna:

„Það sem ég get sagt er það, að það verður horft til þess að þetta verði nýbyggingar eða nýlegt húsnæði. Þá erum við ekki að tala um það að við séum að hjálpa ungu fólki að kaupa á milljón kall fermetrann, heldur að húsnæðið verði fyrirfram skilgreint.“

En líkt og Eyjan hefur áður fjallað um, hafa litlar og nýjar íbúðir einmitt aldrei verið dýrari.

Sjá nánar: Aldrei eins dýrt að eignast litlar íbúðir og nú – Meðalfermetraverðið yfir 572 þúsund krónur

Ekki milljón, en hálf milljón

Samkvæmt skýrslu Íslandsbanka er meðalfermetraverð íbúða undir 70 fermetrum alls 572 þúsund krónur á höfuðborgarsvæðinu og hefur það aldrei verið hærra að raunvirði. Til samanburðar eru dýrustu íbúðir landsins sem fyrr staðsettar í miðbæ Reykjavíkur en þar er meðalfermetraverð um 564 þúsund krónur.

Hlutfall fyrstu kaupenda af öllum fasteignakaupum ársins 2018, var alls 26 prósent. Hinsvegar er hlutfall þeirra sem enn búa í foreldrahúsum hér á landi á aldrinum 25-29 ára það hæsta ef miðað er við nágrannalöndin.

Samkvæmt skýrslu Íslandsbanka hafa litlar íbúðir hækkað um 77% á höfuðborgarsvæðinu og 75% á landsbyggðinni, en það er sú tegund fasteigna sem hækkað hefur mest. Ennfremur hefur smáíbúðaálagið á höfuðborgarsvæðinu aldrei verið hærra, eða 24%

Því má velta upp þeirri spurningu hvort ríkið sé með úrræðum sínum í raun að stuðla að óþarflegri skuldasöfnun þess hóps sem aðstoðina þiggur með því að neyða fyrstu kaupendur og ungt fólk til að kaupa sér óþarflega dýrar eignir.

Einnig, hvort ríkið sé ekki um leið að niðurgreiða dýrar framkvæmdir efnameiri verktaka.

Ætla ekki að skera braskara úr snörunni

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur einnig komið að þessari vinnu. Hann segir það ekki koma til greina að fólki verði lánað fyrir rándýrum íbúðum og verktökum verði rétt hjálparhönd:

„Ég verið töluvert tengdur þessari vinnu og þetta er í sjálfu sér alveg í takt við það sem við erum að hugsa, fyrir utan að það vantar inn öll vikmörk. Það kemur þannig ekki til greina af okkar hálfu (verkalýðshreyfingarinnar) að ríkið skaffi úrræði svo unga fólkið geti skorið braskarana snörunni. Ég hef alltaf litið svo á að það verði sett hámark á kaupverð fyrir tveggja, þriggja og fjögurra fermetra íbúðir þannig að úrræðin nái ekki yfir tveggja herbergja íbúðir sem kosti 50 milljónir. Úrræðið verður að mynda hvata til að byggja nýjar íbúðir á þeim verðum sem markaðurinn er að kalla eftir. Ég lít á það sem algjör svik verði það raunin að ríkið veiti ungu og tekjulágu fólki lán til að kaupa íbúðir sem enginn vill kaupa.“

Horft til hagkvæmni hjá Íbúðalánasjóði

Haukur Ingibergsson, stjórnarformaður Íbúðalánasjóðs, virðist ekki hafa teljandi áhyggjur af því, en Íbúðalánasjóður hefur tekið þátt í útfærslu fyrirkomulagsins um hlutdeildarlánin.

Hann sagði við Eyjuna á dögunum að horft hefði verið til þess að tryggja hagkvæmar íbúðir við vinnslu málsins:

„Eitt af því sem sjóðurinn er sérstaklega að skoða eru leiðir til þess að draga úr áhrifum úrræðisins á fasteignaverð, en óhófleg hækkun þess hefði sérstaklega slæm áhrif á þann hóp sem úrræðinu er ætlað að þjóna. Þegar rætt var um að binda úrræðin við kaup á nýjum íbúðum var litið til þess að sú leið var farin í Bretlandi, en þar var markmiðið að auka hvata til nýbygginga og draga úr áhrifum úrræðisins á fasteignaverð almennt. Hér á landi er umtalsverður skortur á hagkvæmum íbúðum á sölu og þær nýbyggingar sem hafa komið inn á markaðinn undanfarin ár hafa ekki svarað eftirspurn ungs fólks og tekjulágra eftir hóflega verðlögðum og hagkvæmum íbúðum. Við mótun tillagnanna hefur meðal annars verið horft til þess að tryggja að þær íbúðir sem hægt verður að kaupa með hjálp hlutdeildarlána verði hagkvæmar og er þannig stefnt að því að mynda hvata fyrir framkvæmdaraðila, bæði verktaka og húsnæðissamvinnufélög, til að byggja hagkvæmar íbúðir sem myndu henta þessum hópi,“

sagði Haukur en tók fram að tillögurnar væru á vinnslustigi og hefðu ekki verið teknar fyrir á stjórnarfundum Íbúðalánasjóðs.

Svo virðist þó sem að tillögurnar séu nú tilbúnar, því Ásmundur Einar hugðist kynna þær á blaðamannafundi í gær í húsakynnum Íbúðalánasjóðs. Það var þó skyndilega hætt við þau áform, þar sem Ásmundi virðist hafa láðst að kynna þær fyrir ríkisstjórninni.

Sjá nánar: Ásmundur aflýsir blaðamannafundi – Gleymdist að kynna málið fyrir ríkisstjórn – „Púllaði næstum því Sigurð Inga“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK