fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025
Eyjan

Útlendingastofnun: „Í samræmi við verklag“- Ráðfærir sig samt við landlækni vegna útgáfu vottorða

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 6. nóvember 2019 17:57

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Útlendingastofnun hefur gefið út tilkynningu vegna brottvísunar barnshafandi konu frá Albaníu sem mikið hefur verið fjallað um síðasta sólarhring.

Þar er ítrekuð sú afstaða að eftir öllum reglum hafi verið farið, en þó þess getið að stofnunin vilji ráðfæra sig við embætti landlæknis til að fara yfir verklag varðandi útgáfu læknisvottorða:

„Í ljósi þeirrar miklu umræðu sem orðið hefur um flutning barnshafandi konu til Albaníu í gær vill Útlendingastofnun halda eftirfarandi upplýsingum í málinu til haga.

Útlendingastofnun tekur athugasemdir aðstoðarmanns landlæknis og starfsfólks heilbrigðiskerfisins um að með flutningi konunnar úr landi hafi verið farið gegn ráðleggingum sérfræðinga og heilbrigðisstarfsmanna mjög alvarlega. Hvorki Útlendingastofnun né stoðdeild Ríkislögreglustjóra hafa aðgang að sjúkraskrám eða öðrum upplýsingum heilbrigðiskerfisins og þurfa því að reiða sig á útgefin vottorð lækna til að byggja sínar ákvarðanir á. Það er reynsla stofnunarinnar hingað til að þegar læknar telji óráðlegt af heilbrigðisástæðum að einstaklingur sé fluttur úr landi með flugi þá sé kveðið á um það með skýrum hætti í vottorði og er framkvæmd flutnings frestað í slíkum tilvikum.

Forsaga málsins er sú að konan kom hingað til lands ásamt manni sínum og barni og sótti um alþjóðlega vernd í byrjun október. Málið var afgreitt af Útlendingastofnun með ákvörðun um synjun í forgangsmeðferð þann 11. október. Í framhaldinu var málinu vísað til stoðdeildar Ríkislögreglustjóra sem ber ábyrgð á því að framkvæma ákvarðanir um flutning umsækjenda til síns heima. Undirbúningur stoðdeildar varðandi tilhögun á lögreglufylgd tekur sinn tíma en hann felst meðal annars í vali á ferðaleið og öflun samþykkis erlendra stjórnvalda fyrir gegnumför lögreglumanna í fylgd sem og stjórnvalda í móttökuríki. Þar að auki er það hlutverk starfsmanna stoðdeildar að ganga úr skugga um að ekki séu til staðar ástæður sem koma í veg fyrir framkvæmd flutningsins.

Í því tilviki sem hér er um rætt var það gert með þeim hætti að stoðdeild hafði samband við heilsugæsluna á Höfuðborgarsvæðinu, sem annast þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd samkvæmt samningi við Útlendingastofnun, og fékk þar vottorð frá lækni um að viðkomandi væri gengin rúmar 35 vikur og ferðafær. Vottorðið var gefið út þann 4. nóvember eða degi fyrir brottför, í samræmi við reglur flugfélaga um aldur slíkra vottorða. Undir kvöld þann sama dag fór konan á kvennadeild Landspítala og var útskrifuð eftir miðnætti. Lögreglumenn stoðdeildar fengu tilkynningu um það þegar konan var komin aftur í búsetuúrræðið þar sem hún dvaldi og fóru þangað og ræddu við hana og fengu að sjá vottorð sem gefið var út á Landspítalnum skömmu áður. Þegar þeim var ljóst að á því vottorði kæmi hvorki fram að fyrirhugaður flutningur væri óráðlegur né að flutningur viðkomandi úr landi á þessum tímapunkti myndi stefna öryggi hennar í hættu var ákveðið að fresta flutningnum ekki.

Eins og settur forstjóri Útlendingastofnunar fór yfir í samtölum við fjölmiðla í gær var framkvæmdin í þessu tiltekna máli í samræmi við stefnu stjórnvalda um mannúðlega og skjóta afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd og í samræmi við verklag Útlendingastofnunar og stoðdeildar ríkislögreglustjóra í slíkum málum.

Útlendingastofnun hefur þegar óskað eftir fundi með embætti landlæknis til að fara yfir þetta mál sem og almennt um það með hvaða hætti skuli standa að öflun læknisvottorða vegna slíkra mála.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Opinn fundur um tjáningarfrelsi og framtíð fréttamennsku

Opinn fundur um tjáningarfrelsi og framtíð fréttamennsku
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þorsteinn Pálsson: Samskiptin við Bandaríkin lík samskiptum við alræðisríki

Þorsteinn Pálsson: Samskiptin við Bandaríkin lík samskiptum við alræðisríki