Hitamál vikunnar er bersýnilega brottvísun hinnar barnshafandi albönsku konu sem neitað var um hæli hér á landi.
Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, segist í pistli fylgjandi brottvísun konunnar og telur að samtökin No Borders, sem vöktu fyrst athygli á málstað konunnar, stuðli að sundrungu í samfélaginu.
Þessu unir Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokks Íslands,ekki. Hann ræðst harkalega að Birni fyrir ummæli sín:
„Björn Bjarnason er eiturtunga og slefberi sem Sjálfstæðisflokkurinn, með stuðningi allra þingflokka, heldur á launum frá almenningi fyrir tilgangslausa skýrslugerð, en sem eru í raun laun fyrir að sverta pólitíska andstæðinga Sjálfstæðisflokksins og grafa undan baráttu almennings fyrir réttlæti, mannvirðingu og jöfnuði,“
segir Gunnar Smári og vísar til skýrslu sem Björn vann að um EES-samstarf Íslands.
Gunnar segir að Björn reyni með ummælum sínum að grafa undir hugsjónafólkinu sem krefjist réttlætis í garð hælisleitenda:
„Hér reynir Björn að grafa undan því hugsjónafólki sem hefur reynt að láta raddir hinna veikast settu heyrast, sem er stór glæpur í augum þeirra sem tigna valdið og þola það ekki þegar heyrist í þeim sem það kremur undir hæl sínum.“
Gunnar minnist einnig á Hannes Hólmstein Gissurarson, sem einnig hefur fengið greitt úr sjóðum ríkisins fyrir skýrslugerð:
„Sjálfstæðisflokkurinn sækir með sama hætti fé til almennings til að launa Hannesi Hólmsteini þann óhróður og illmælgi sem vellur upp úr honum. Með ólíkindum að aðrir flokkar taki þátt í þessu, þeir virðast njóta þess að vera undir hæl Sjálfstæðisflokksins.“
Sjá nánar: Björn styður brottflutning albönsku konunnar og segir No Borders stuðla að sundrun samfélagsins
Sjá einnig: Kvartað undan Kai í kjölfar brottvísunar hælisleitenda – Sögð brjóta siðareglur – Skellti á blaðamann