Samkvæmt frétt á Vísi verður nú heimilt að byggja hús í kringum Valhöll, höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins. Nú er í sjálfu sér ekkert að því að þétta byggðina á þessu svæði, þarna er óbyggt flæmi sem er engum til gagns eða ánægju.
Valhöll var reist á tíma þegar Sjálfstæðisflokkurinn var öflugri en hann er nú. Flokksmenn sameinuðust um að byggja þetta stóra hús undir flokksstarfið – einn aðalforsprakkinn í því var Albert Guðmundsson. Húsið fengi seint einhver fegurðarverðlaun, en er óneitanlega kennileiti – svona á svipaðan hátt og til dæmis Útvarpshúsið sem hefur verið umkringt af byggð á síðustu árum, en fékk áður að standa eitt og sér.
Þarna mun eiga að rísa íbúða- og skrifstofuhúsnæði eftir forskrift sem er lýst í fréttinni á Vísi. En það er svo merkilegt að manni finnst eins og húsið sem hér birtist mynd af hafi verið byggt áður í borginni, reyndar oft og mörgum sinnum síðustu árin, nú síðast á svonefndu Hafnartorgi.