Fasteignaverð hefur verið í hæstu hæðum undanfarin ár og eiga fyrstu kaupendur í hinu mesta basli við að koma sér þaki yfir höfuðið sökum skorts á litlum ódýrum íbúðum.
Gunnar Smári Egilsson, sósíalistaforingi með meiru, birtir í dag gamla fasteignaauglýsingu frá árinu 1979, eða fyrir 40 árum síðan:
„Ástæðan fyrir því að ég set hana hér er að þið getið lesið hana eins og hún væri ný; upphæðirnar eru í reynd raunvirði dagsins í dag (verðlag hefur hækkað svo síðan að gömlu krónurnar í auglýsingunni eru jafnverðmætar og nýkrónur dagsins í dag).“
Gunnar spyr hvað hafi í raun breyst ?
„Tja, verð á fermetra íbúðarhúsnæðis hefur tvö-, þre- og fjórfaldast á þessum fjörutíu árum. Hver græðir á því? Alla vega ekki almenningur sem þarf að borga tvöfalt, þrefalt eða fjórfalt meira fyrir þak yfir höfuðið. Og það vegur þungt; yfir ævina mun ungt fólk í dag greiða 40 m.kr. meira fyrir meðalstóra íbúð og í raun 80 m.kr. þar sem þessi upphæð er tekin að láni til mjög langs tíma. Það eru um það bil 130 þús. kr. á mánuði ævina á enda, gjald vegna hækkunar húsnæðisverðs frá 1979.“
Árið 1981 var gerð myntbreyting hér á landi þar sem tvö núll voru felld af verðgildi krónunnar og urðu því 100 gamlar krónur að einni nýkrónu. Var þetta meðal annars gert vegna hárrar verðbólgu, sem olli því til dæmis að allar upphæðir í viðskiptum voru orðnar fáránlega háar. Mældist verðbólgan hátt í 40 prósent það árið, en fór hæst í 87.4 prósent árið 1983, sem er Íslandsmet.
Gunnar rifjaði einnig fyrir skemmstu upp húsnæðisverðið í Breiðholtinu frá árinu 1974 og reiknaði það yfir á núvirði, ásamt því að framreikna neysluvísitölu. Að núvirði kostuðu þær íbúðir mun minna en þær gera í dag:
Til samanburðar má nefna að 40 fermetra, tveggja herbergja íbúð að Kríuhólum 2 kostar í dag 26.9 milljónir króna. Þá kostar 72 fermetra, 3ja herbergja íbúð að Krummahólum 34.9 milljónir. Stór 150 fermetra íbúð á sama stað (5 herbergja) kostar 49.7 milljónir.
Gunnar velti skýringunum fyrir sér:
„Hvað gerðist eiginlega? Af hverju er ekki lengur hægt að byggja svona ódýrar íbúðir? Eða er kannski svona ódýrt að byggja en það er bara smurt svo þykkt ofan á söluverðið í dag?“
Sjá einnig: Sjáðu hvað tveggja herbergja íbúð kostaði árið 1974 að núvirði:„Hvað gerðist eiginlega?“
Gunnar ber því við að meginkrafa almennings eigi að vera lækkun húsnæðisverðs:
„Til að ná fram lækkun þarf að hrekja lóðabraskara, verktaka (kverktaka), spákaupmenn, leigufyrirtæki og aðra braskara út úr húsnæðiskerfinu. Húsnæði er mannréttindi, ekki markaðsvara og allra síst braskvara.“