fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Mogginn hæðist að Pírötum vegna tillögu um tæknistjóra ríkisins – „Dæmigerður vinstriflokkur“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 9. október 2019 10:34

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Staksteinahöfundur Morgunblaðsins gefur lítið fyrir hugmyndir Pírata um að stofna sérstakt embætti tæknistjóra ríkisins og spyr hvort það sé reynsla skattgreiðenda að fjölgun stofnana hins opinbera dragi úr útgjöldum, líkt og markmiðið sé með tillögu Píratanna. Staksteinahöfundur segir að þrátt fyrir fögur fyrirheit í upphafi hreyfingarinnar, séu Píratar eins og hver annar vinstriflokkur og spyr hvort það sé virkilega hagkvæmt að fjölga stofnunum:

„Þegar Píratar buðu fyrst fram átti flokkurinn að vera öðruvísi en þeir sem fyrir voru og margir kjósendanna töldu að honum væri ætlað að hrista upp í kerfinu og horfa á viðfangsefni stjórnmálanna ferskum augum. Þetta hefur ekki gengið eftir. Flokkurinn þróaðist hratt út í að vera dæmigerður vinstriflokkur þar sem lausnirnar voru aukin útgjöld og frekari umsvif hins opinbera þó að á slíku væri síst skortur.“

Þá segir einnig um tillögu Pírata:

„Fáir flokkar ef nokkur hafa meiri trú á opinberum stofnunum en Píratar, að minnsta kosti þingmenn þess flokks þó að óvíst sé að kjósendur flokksins séu jafn einbeittir áhugamenn um ríkislausnirnar því að þingmenn Pírata reyna enn að halda í þá ímynd að þeir séu öðruvísi. Nýlegt dæmi um ofurtrú þingmannanna á stofnunum birtist í þingsályktunartillögu sem þeir lögðu fram á dögunum um „stofnun embættis tæknistjóra ríkisins“. Þessi nýja stofnun á að hafa „yfirumsjón með tæknilegum innviðum Stjórnarráðsins, svo unnt verði að taka þau föstum tökum og m.a. byggja upp góða tækniþekkingu innan stofnunarinnar og lækka útgjöld ríkisins með stærðarhagkvæmni“. Stofnunin nýja á sem sagt ekki aðeins að bæta tæknimálin heldur líka að spara fé.“

Að lokum spyr Staksteinahöfundur:

„En er reynsla skattgreiðenda að nýjar stofnanir dragi úr útgjöldum? Eða getur verið að þær auki umsvif hins opinbera og útgjöldin um leið?“

Markmiðið sé stærðarhagkvæmni

Píratar lögðu fyrst fram tillöguna árið 2017 og aftur í fyrra, þar sem Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar lagði henni einnig lið. Hann er nú genginn úr skaftinu og tillagan því aðeins lögð fram af Pírötum.

Tillagan miðar að því að stofnað verði embætti tæknistjóra ríkisins sem hafi yfirumsjón með tæknilegum innviðum Stjórnarráðsins, samþættingu vefkerfa og forritunarviðmóta og stöðlun þróunarferla og gæðastýringar við hugbúnaðargerð, hafi utanumhald um opin gögn, annist ráðgjöf um upplýsingaöryggismál og hafi umsjón með útboðum sem snúa að hugbúnaðarþróun og öðru sem snýr að því að tryggja gæði rafrænnar þjónustu hins opinbera gagnvart almenningi.

Píratar telja að með samstilltum aðgerðum væri hægt að leysa málið og búa til umhverfi þar sem stærðarhagkvæmni náist:

„Tækniþekking innan stofnunarinnar gerði að verkum að hægt væri að gera nákvæmari og betri samninga við verktaka, betra aðhald væri tryggt í samskiptum við verktaka og hægt væri að leysa tæknileg ágreiningsatriði hraðar og í meiri sátt. Slík stofnun sæi ekki endilega um hugbúnaðarþróunina sem slíka enda væri hægt ýmist að bjóða hana út eða vinna hana innan húss hjá viðkomandi stofnun eftir atvikum.“

Þá er vísað í erlendar hliðstæður frá Bandaríkjunum og Bretlandi, þar sem þetta hafi gefist vel.

Reiðuleysi ríkisins

Í greinagerð tillögunnar er vísað í skriflegar fyrirspurnir til fagráðherra um þau hugbúnaðarkerfi sem í notkun eru hjá ríkisstofnunum og ráðuneytum:

„Ekki bárust svör við öllum fyrirspurnum en svörin sem komu gáfu vísbendingar um reiðuleysi í eignarhaldi hugbúnaðarins. Í mörgum tilfellum var notaður sérsmíðaður hugbúnaður í eigu fyrirtækisins sem þróaði hann, sem gefur fyrirtækinu einokunarrétt á rekstri og úrbótum á kerfinu. Í svörum ráðherra mátti greina fylgni milli mikils kostnaðar við notkun kerfanna og þess að eignarhaldið var hjá öðrum en verkkaupa, þó að frekari gögn vanti til að geta sagt til um hvort fylgnin er sterk.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Valkyrjustjórnin tekur við á morgun

Valkyrjustjórnin tekur við á morgun
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Viðreisn fái fjármálaráðuneytið og utanríkismálin – Inga Sæland fylgi hjartanu og taki félagsmálaráðuneytið

Viðreisn fái fjármálaráðuneytið og utanríkismálin – Inga Sæland fylgi hjartanu og taki félagsmálaráðuneytið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Lofar nýjum og betri Brynjari 2025 – „Ekki þjóðsaga að nefið stækki með hverri lygi“

Lofar nýjum og betri Brynjari 2025 – „Ekki þjóðsaga að nefið stækki með hverri lygi“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Tímabært að gera upp við landsdómsmálið

Björn Jón skrifar: Tímabært að gera upp við landsdómsmálið