Svein Harald Øygard, fyrrverandi seðlabankastjóri Íslands, segir í nýútkominni bók sinni „Í víglínu íslenskra fjármála“ að hann hafi viljað láta elta uppi það fé sem eigendur bankanna tóku út úr þeim með vafasömum hætti rétt fyrir hrun:
„Að mínu mati voru þrotabú hrundu bankanna í kjöraðstöðu til þess að elta uppi fjármagnið á flótta/Ég mælti með því að allt yrði reynt.“
Øygard nefnir að hann hafi mætt mótspyrnu varðandi þessar hugmyndir sínar, án þess að greina nánar frá því hverjir veittu hana og á hvaða forsendum:
„Þegar ég mætti mótspyrnu lét ég bókfæra álit mitt í fundargerð. Ég er enn þeirrar skoðunar að þrotabúin hefðu átt að gera meira til þess að hafa uppi á sjóðum sem voru líklega í felum.“
Hann segir að mörg lán hafi verið veitt með vafasömum hætti og í gegnum vensl og peningarnir oft sendir í skattaskjól í löndum þar sem eignarhaldið væri óljóst og ógagnsætt með öllu.
Ýmsar vangaveltur hafa verið uppi í gegnum tíðina um hvert allir þeir milljarðar sem teknir voru út úr bönkunum fyrir hrun fóru og hvort ekki ætti að gera tilraun til þess að hafa uppi á þeim, en ekki er vitað um slíkar tilraunir af hálfu hins opinbera.
Gylfi Zoega hagfræðiprófessor sagði í grein í Vísbendingu í fyrra að hluti fjárins hefði tapast í erlendum fjárfestingum og einhverju hefði verið komið undan í skattaskjól, en ekki væri hægt að segja til um neinar upphæðir.