Málþing verður haldið um heimilisleysi á alþjóðlegum degi heimilisleysis (worldhomlessday.org) 10. október næstkomandi. Þingið er haldið í samvinnu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, Geðhjálpar, SÁÁ og Velferðarvaktarinnar og er yfirskrift þess Samfélag fyrir alla – ábyrgð allra, samkvæmt frétt á vef Reykjavíkurborgar.
Á málþinginu verður kynnt vinna velferðarsviðs Reykjavíkur um endurskoðun á stefnu borgarinnar í málefnum heimilislauss fólks. Einnig verður kynnt vinna stýrihóps á vegum félagsmálaráðuneytisins um sama málefni. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, setur málþingið og því lýkur með pallborðsumræðum.
Árið 2017 voru heimilislausir alls 349 manns í Reykjavík eða 95% fleiri en árið 2012, samkvæmt skýrslu Velferðarráðuneytisins og Íbúðalánasjóðs. Voru 153 einstaklingar af þeim sagðir búa við ótryggar aðstæður, 118 voru í gistiskýlum, 58 voru með langtímabúsetuúrræði, 97 voru að ljúka stofnanavist og 76 voru á götunni að einhverju leyti.
Um helmingur þeirra sem voru skilgreindir sem utangarðs, voru á aldrinum 21-40 ára. Flestir höfðu verið heimilislausir í tvö ár eða lengur, eða alls 40%.
Mikill meirihluti þeirra eru Íslendingar, eða 86% samkvæmt tölum frá 2017.
Helsta orsök þess að einstaklingar lenda utangarð er misnotkun á áfengi og vímuefnum, en næst algengasta orsökin eru geðræn vandamál. Um 80% utangarðsmanna (142) með geðrænan vanda glíma einnig áfengis- og vímuefnavanda.
Samkvæmt Umboðsmanni Alþingis býður Reykjavíkurborg ekki upp á næg úrræði fyrir utangarðsfólk vegna bráðs húsnæðisvanda.