Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir að frumvarp sem leyfi starfsemi farveitunnar Uber á Íslandi verði lagt fram á þingi bráðlega.
Þetta gæti orðið eldfimt mál.
Uber hefur sína kosti. Þetta er þægileg þjónusta og ekki sérlega dýr. Ég hef notað hana talsvert í Bandaríkjunum og þá reyndar frekar Lyft – sem hefur betra orð á sér en Uber. Maður pantar í gegnum síma, greiðir með honum, og manni er skilað beint upp að dyrum. Það er líka ágætt að geta séð fyrirfram hvernig bíl maður getur átt von á og umsagnir sem bílstjórinn fær.
Leigubílar á Íslandi eru dýrir – og maður getur stundum þurft að bíða óþægilega lengi eftir þeim.
En gallarnir eru ófáir, enda hefur starfsemi Uber verið bönnuð víða. Þetta snýst ekki síst um ábyrgð farveitunnar sjálfrar – hún er ekkert nema milliliður, vefsíða og app, og reynir að komast upp með að taka eins litla ábyrgð og hægt getur. Mestallt slíkt lendir á bílstjórunum sjálfum sem eiga bílana og reka þá.
Bílstjórarnir hjá Uber eru líka afar illa launaðir, njóta lítilla réttinda, á meðan fyrirtækið er metið á milljarða dollara á hlutabréfamarkaði.
Annar vandi við Uber (og aðrar farveitur) er að þær auka bílaumferð í borgum, þegar við ættum í raun að stefna í þveröfuga átt. Ástæðan er sú að fólk sem annars myndi nota almenningssamgöngur venur sig á að nota Uber – sem eins og segir hér að ofan getur verið býsna þægilegt.
Þetta er semsagt álitamál.