„Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að lækka stýrivexti um 0,25 prósentur við næstu vaxtaákvörðun bankans þann 6. nóvember næstkomandi. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða samkvæmt því 3,0% en vextirnir voru 4,5% í ársbyrjun. Ekki er þó útilokað að vöxtum verði haldið óbreyttum, en í því tilfelli er að mati okkar líklegt að vextirnir verði lækkaðir á komandi mánuðum,“
segir í Korni Íslandsbanka sem kom út í dag.
Allir nefndarmenn í peningastefnunefnd Seðlabankans voru á einu máli um að lækka stýrivexti um 0,25 prósentur á síðasta vaxtaákvörðunarfundi í októberbyrjun. Var það í annað skiptið í röð þar sem samstaða er um vaxtalækkun meðal nefndarmanna. Ólíkt ágústfundi nefndarinnar var þó einnig til umræðu í þetta skiptið hvort halda ætti stýrivöxtum óbreyttum. Í ágúst var eingöngu rætt um vaxtalækkun og virtist enginn nefndarmaður þá á þeim buxunum að íhuga í alvöru óbreytta stýrivexti.
Seðlabanki Íslands hefur lækkað vexti í fjórum lotum í röð, sem leitt hefur til þess að vextir íbúðalána fara lækkandi. Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG verks, sögðu í gær að skortur væri á lánsfé hjá bönkunum og ekki væri nægilegt framboð á fjármagni. Því benti margt til þess að vextir yrðu hækkaðir á ný.