Í hagspá Hagfræðideildar Landsbankans sem birt var í dag er gert ráð fyrir að landsframleiðsla dragist saman á þessu ári og að hagvöxtur verði neikvæður um 0,4%. Horfur eru á hóflegum efnahagsbata á næstu árum og spáir deildin því að hagvöxtur á Íslandi verði jákvæður um 2% árið 2020 og heldur meiri á árunum 2021 og 2022. Verðbólga verði nálægt verðbólgumarkmiði Seðlabankans og vextir lágir.
Hagfræðideildin telur að hagvöxtur næstu ára verði studdur af lágum en sjálfbærum vexti einkaneyslu, auknum opinberum fjárfestingum, vaxandi útflutningi og viðsnúningi í atvinnuvegafjárfestingu þegar fram í sækir. Hagspáin endurspeglar að töluverð óvissa er um þróun hagvaxtar í heiminum næstu misseri sem birtist nú þegar í hægari vexti alþjóðaviðskipta og iðnaðarframleiðslu. Frekari stigmögnun þeirrar þróunar, umfram það sem nú er gert ráð fyrir, kann að hafa töluverð neikvæð áhrif hér á landi, m.a. á ferðaþjónustuna, sjávarútveg og orkufrekan iðnað. Að sama skapi myndi jákvæður viðsnúningur í alþjóðaviðskiptum hafa jákvæð áhrif hérlendis, umfram það sem spáin gerir ráð fyrir. Í spánni er gert ráð fyrir að verðbólga verði í stórum dráttum í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands (2,5%) út spátímabilið, enda gert ráð fyrir að hagvöxtur verði í takt við langtímaframleiðslugetu þjóðarbúsins.
Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans, segir:
„Lokum hagvaxtarskeiða á Íslandi hefur oft fylgt erfitt aðlögunartímabil vegna ójafnvægis sem byggst hefur upp á góðærisárunum. Því er þó ekki þannig farið í þetta skiptið. Þvert á móti er staða fyrirtækja og heimila almennt nokkuð góð ef horft er til eigna og skuldsetningar. Þá hefur kaupmáttur launa aldrei verið meiri, staða ríkissjóðs er mjög sterk og staða sveitarfélaga hefur almennt batnað. Þá hefur Seðlabankinn byggt upp mjög myndarlegan óskuldsettan gjaldeyrisvarasjóð sem er mikil breyting frá því sem áður var. Þar að auki styður afgangur á utanríkisviðskiptum við gengi krónunnar.“
Aðrir þættir í hagspá Landsbankans 2019-2022:
- · Heildarfjárfestingar hins opinbera jukust um 21,2% að raungildi árið 2018 og 23,3% árið 2017. Spáin gerir ráð fyrir að opinber fjárfesting aukist áfram af nokkrum krafti næstu ár, um 6% á árinu 2019, um 10% árið 2020 og 5% árin 2021 og 2022.
- · Gert er ráð fyrir að atvinnuvegafjárfesting dragist saman um 21,2% á árinu. Ef spáin gengur eftir verður um að ræða mesta samdrátt í atvinnuvegafjárfestingu frá árinu 2009.
- · Spáð er 9,5% samdrætti í heildarfjárfestingum í hagkerfinu á þessu ári. Ef sú spá gengur eftir verður um að ræða mesta samdrátt í fjárfestingum síðan 2009.
- · Gert er ráð fyrir 5,7% samdrætti í útflutningi á þessu ári og skýrist samdrátturinn fyrst og fremst af gjaldþroti WOW air og samdrætti í ferðaþjónustu. Árið 2020 er spáð 0,2% vexti í útflutningi sem verði borinn af vexti í ferðaþjónustu. Árin 2021 og 2022 er gert ráð fyrir að útflutningur haldi áfram að vaxa hóflega og verður vöxturinn áfram borinn uppi af vexti í ferðaþjónustu.
- · Hagfræðideildin reiknar með að raunverð íbúða hækki um u.þ.b. 1% á ári næstu ár. Sé tekið mið af áætlaðri verðbólgu er gert ráð fyrir að nafnverðshækkun íbúðaverðs verði u.þ.b. 4% að jafnaði til ársloka 2022. Hækkun íbúðaverðs verður þannig lítil í sögulegu samhengi og helst drifin áfram af kaupmáttaraukningu launa, hagstæðari lánakjörum og aukinni kaupgetu fólks í takt við aukningu ráðstöfunartekna í kjölfar skattkerfisbreytinga og aðgerða til þess að liðka fyrir húsnæðiskaupum. Bent er á að margir þættir geti haft áhrif á þróun verðlags og skipti áform stjórnvalda miklu í því samhengi.
- · Hagfræðideild reiknar með að fjárfesting í íbúðarhúsnæði aukist um 15% í ár og um 7% á næsta ári. Árin 2021 og 2022 er gert ráð fyrir litlum breytingum milli ára. Það mun því draga úr þeirri aukningu íbúðafjárfestingar sem hefur einkennt síðustu ár.
- · Líklegt má telja að atvinnuleysi muni aukast eitthvað á næstu misserum, þó ekki eins mikið og reikna mátti með á tímabili. Hagfræðideild reiknar með að skráð atvinnuleysi verði 3,6% í ár, 4% á árinu 2020 og 3,5% á árunum 2021 og 2022.
- · Verði niðurstaða samninga opinberra starfsmanna álíka og á almenna markaðnum hvað almennar launahækkanir áhrærir gerir Hagfræðideildin ráð fyrir að launavísitalan hækki um 4,7% í ár, 4,2% á næsta ári, 6% á árinu 2021 og 4,9% á árinu 2022.
- · Hagfræðideild telur líklegt að peningastefnunefnd Seðlabankans muni lækka vexti um 0,25 prósentur til viðbótar á þessu ári þannig að þeir verði 3% í árslok. Gangi spá deildarinnar um aukinn hagvöxt og lækkun atvinnuleysis fyrir árið 2021 eftir telur deildin líklegt að í byrjun árs 2022 verði talið tímabært að draga úr slaka peningastefnunnar og hækka stýrivexti lítillega.
- · Hagfræðideild býst við áframhaldandi afgangi af viðskiptum við útlönd og tiltölulega stöðugu gengi krónunnar á spátímabilinu.
- · Spáin gerir ráð fyrir 6,4% samdrætti í innflutningi á þessu ári en að innflutningur aukist um 4% árið 2020, um 3,3% árið 2021 og um 4,5% árið 2022.