Ásmundur Ingvarsson, framkvæmdstjóri verkfræðistofunnar, segir að kostnaðaráætlun verksins, sem stofan gerði, hafi verið raunhæf en ekki hafi verið farið eftir henni.
„Við vísum því alfarið á bug að óeðlilegar greiðslur hafi borist til okkar og skiljum ekki hvaðan sú umræða kemur. Það er rétt að við gerðum kostnaðaráætlun vegna verkefnisins á Hafnarbraut. Sú kostnaðaráætlun er raunsæ en það var ekki farið eftir henni. Stjórnendur Upphafs sömdu aðra kostnaðaráætlun innanhúss sem hefur ráðið för og virtu okkar mat að vettugi.“
Hefur Fréttablaðið eftir honum en það fjallar um málið í dag.
Fram kemur að málið snúist um byggingu 129 íbúða við Hafnarbraut 12 á Kársnesi. Áætlað var að hefja byggingu fyrstu íbúðanna í haust en ljóst er að tafir verða á því. Í tilkynningu frá GAMMA kom fram að kostnaðurinn við framkvæmdir á vegum Upphafs, þar á meðal við Hafnarbraut 12, hafi verið vanmetinn og framvinda verkefna félagsins hafi verið ofmetin.
Fréttablaðið segir að Máni Atlason, nýráðinn framkvæmdastjóri GAMMA, hafi ekki getað tjáð sig um málið. Hann sagði nýja stjórnendur vera að rannsaka, með hjálp utanaðkomandi sérfræðinga, hvað hafi farið úrskeiðis hjá félaginu. Hann vildi ekki svara því hvort fyrri stjórnendur hefðu gerst sekir um saknæmt athæfi.