Hrun sjóðs GAMMA hefur varla farið framhjá neinum, þar sem eigið fé sjóðsins hrundi úr rúmum fjórum milljörðum í 40 milljónir á innan við ári.
Gunnar Smári Egilsson, sósíalistaforingi, fer ófögrum orðum um byggingabransann og segir það fáránlegt að einkafyrirtæki stjórni húsnæðisuppbyggingunni í landinu:
„Upphaf Gamma er aðeins upphafið að hruni byggingabransans, sem er gegnumrotinn af heimsku og græðgi. Sem sést á afurðunum; fáránlegu offramboði af íbúðum sem enginn vill eða hefur ráð á, á sama tíma og þúsundir fjölskyldna þjást enn í grimmri húsnæðiskreppunni. Hugmyndin að láta einkafyrirtækjum, sem rekin eru til að hámarka arð til eigenda sinna, stjórna húsnæðisuppbyggingunni í samfélaginu er gaggalagú.“
Gunnar krefst þess að ýmis grunnkerfi samfélagsins losni undan forsendum arðsemi:
„Það má vera að einkafyrirtækjum sé treystandi til að reka ísbúð eða kaffihús, en þau eiga ekkert erindi inn í grunnkerfi samfélagsins, kerfi sem verða að þjónusta fjöldann en ekki aðeins hin fáu ríku og þau sem dreymir um að verða rík á kostnað fjöldans. Krafa dagsins á að vera að lýsa grunnkerfi og innviði samfélagsins gróðalaus svæði; húsnæðiskerfið, skólakerfið, heilbrigðiskerfið, vegakerfið, lyfjaframleiðslu og -dreifingu, rafmagn, hita og vatn o.s.frv.“
Eins og fram hefur komið er allt í uppnámi varðandi tvo fagfjárfestasjóða GAMMA. GAMMA: Novus og GAMMA: Anglia, en staða þeirra er allt önnur og verri en haldið hafði verið fram undanfarna mánuði. Fram hefur komið að kostnaðaráætlun sem Ferli verkfræðistofa vann fyrir Upphaf, sem er í eigu GAMMA: Novus, vegna byggingaframkvæmda við Hafnarbraut 12 á Kársnesi hafi ekki verið í takt við raunveruleikann og hafi kostnaður verið vanmetinn.
Sjá nánar: Stjórnendur GAMMA virtu kostnaðarmat að engu og bjuggu til sitt eigið
Sjá nánar: Tap „gulldrengjanna“ í GAMMA vekur athygli – „Var þetta svikamylla?“