Seðlabanki Íslands hefur lækkað vexti í fjórum lotum í röð, sem leitt hefur til þess að vextir íbúðalána fara lækkandi. Næst greinir Seðlabankinn frá vaxtaákvörðun sinni þann 6. nóvember en óvíst er hvort vextir muni lækka frekar, heldur er því spáð að þeir standi í stað, eða jafnvel hækki á ný.
Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, segir við Morgunblaðið að margt bendi til þess að vextir séu að ná lágmarki. Þá sé tækifæri fyrir lántaka að endurfjármagna óhagstæð lán, en óvíst sé hvort ný lán muni borga sig.
Hann segir um margt að hugsa fyrir íbúðakaupendur:
„Við gætum verið að fara inn í skandinavískt umhverfi þar sem vextir eru almennt lágir en húsnæðisverð í þéttbýli hátt. Þar hefur samsetning á greiðslubyrði húsnæðislána breyst á liðnum árum, vextir lækkað en á móti hafa afborganir höfuðstóls hækkað vegna hærra húsnæðisverðs. Um leið og vextir lækka dregur úr hvata fólks til að vera með innlán og þ.a.l. getu útlánsstofnanna til að lána. Margt bendir til þess að komið sé viðnám á vaxtalækkunina undanfarið og að meira jafnvægi sé að nást á milli eftirspurnar eftir lánsfé og framboðs.“
Gunnar nefnir að bankarnir hafi dregið úr útlánum til fyrirtækja og sumir lífeyrissjóðir nálgist efri mörk æskilegs hlutfalls sjóðsfélaga af eignum:
„Fjárfestingarstefna sjóðanna mótast af eigna- og áhættudreifingarsjónarmiðum og sjóðirnir hafa ekki ótakmarkaða getu til að lána. Öll þessi atriði geta haft áhrif á þróun vaxta á næstunni.“
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir við Morgunblaðið að vaxtalækkanir Seðlabankans hafi ekki skilað sér í gegnum kerfið:
„Seðlabankinn lækkar vexti til að örva eftirspurn í hagkerfinu og örva fjárfestingu. Ef það á hins vegar að raungerast þarf að vera framboð á fjármagni.“
Undir orð hans tekur Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG verks, eins stærsta verktakafyrirtæki landsins sem segir vísbendingar um að fjármálastofnanir hafi dregið úr útlánum til framkvæmda:
„Það virðist eiga við framkvæmdir almennt. Vextir hafa lækkað mikið. Því er einkennilegt að það skili sér aðeins að litlu leyti til lántaka og að samhliða vaxtalækkunum skuli vera skortur á lánsfé.“
Seðlabankinn fækkaði þeim aðilum sem átt geta viðskipti við bankann á dögunum, en sú aðgerð tekur gildi 1. apríl á næsta ári. Sigurður það lið í að koma fjármagni og innlánum í bankana og geti orðið til að örva útlán:
„Ef þetta er raunin má segja að lánamarkaðurinn sé kjörbúð þar sem vöruverðið er að lækka en allar hillurnar eru tómar.“
Haft er eftir ónafngreindum fjárfesti í Morgunblaðinu að enn sé hægt að fá lán í byggingabransanum, en útlánaskilyrði hafi verið hert:
„Ég var að fjármagna eitt verkefnið. Það er ekki búið að taka í handbremsuna heldur eru fjármálastofnanir farnar að sía meira út af verkefnum … Ég hef heyrt að umsóknum um íbúðalán hjá bönkunum hafi fjölgað undanfarið. Fasteignasalar segja mér að það sé fyrst og fremst vegna þess að afgreiðslutími lífeyrissjóða á íbúðalánum sé orðinn svo langur.“
Nefnir hann einnig að vaxtalækkanir hafi í raun örvað markaðinn, en krónuskortur á markaði gæti dregið úr uppbyggingu á íbúðum þar sem bankana skorti fjármagn.