fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Segir siðrofsskýringu biskups neikvæða og gildishlaðna -„Ég myndi kannski nota annað orð“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 29. október 2019 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðeins þriðjungur landsmanna treystir þjóðkirkjunni að miklu leyti samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup. Er það helmingsfækkun frá árinu 2000 þegar traustið mældist yfir 60 prósent.

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, segir ástæðurnar hugarfarslegar og tæknilegar, félagsstarf í landinu hafi minnkað samhliða auklinni notkun samfélagsmiðla og afþreyingar. Hún segir við RÚV að sú ákvörðun að hætta kennslu á kristnifræði í skólum hafi leitt þjóðina til glötunar:

„Það hefur orðið siðrof held ég. Fólk áttar sig ekki á því hvaðan hlutirnir koma sem við viljum gjarnan lifa eftir og starfa eftir. Það náttúrulega segir sig sjálft að ef að börnin læra ekki heima hjá sér til dæmis biblíusögurnar eða í skólanum á verður framtíðin þannig að þau vita ekki að þetta er til. Ef maður veit ekki að eitthvað er til þá skiptir það mann engu máli, -fyrren kannski allt í einu að eitthvað kemur uppá.“

Skjól fyrir grimmd með guðsorð á vör

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, fjallar um málið í færslu á Facebook síðu sinni:

„Það er alveg rétt hjá biskupi að það breytti miklu þegar kirkjan hafði ekki lengur aðgang að börnum landsins gegnum skólakerfið með sögur sínar og siðaboð. Tök kirkjunnar á sálum landsmanna hafa linast hægt og rólega, ár frá ári. Presturinn er ekki lengur andlegur leiðtogi hverfisins. Leitarvélarnar á netinu hafa tekið við handleiðsluhlutverkinu.“

Hann segir hinsvegar að þó svo kristin trú geti verið skjól og kærleiksríkur boðskapur, sé önnur hlið á þeim pening:

„En hún hefur líka birst okkur sem dimmur staður, líka verið skjól fyrir grimmd með guðsorð á vör. Kirkjan er valdakerfi og prestar reyna að beina hugarstarfi almennings inn á vissar brautir. Öðlast vald yfir sálum. Ég held að tiltrú sína og traust í samfélaginu hafi kirkjan misst vegna þess að innan raða hennar hófust upp menn sem ekki kunnu með þetta vald að fara, höfðu ekkert fram að færa annað en innantóm orð, þó að auðvitað hafi það sitt að segja líka að börnin læri ekki biblíusögurnar sem sannleikur væri heldur séu þær bara ein af mörgum mýtum mannanna um tilurð og eiginleika heimsins,“

segir Guðmundur og nefnir sem dæmi um réttindi samkynhneigðra, sem þjóðkirkjan barðist gegn á öllum stigum:

„Það held ég að hafi líka rofið vissan trúnað gagnvart þessari stofnun hjá mörgum, jafnvel þótt margir prestar væru með á nótunum.“

Siðrof sé stórt orð

„Það er svolítið stórt orð, siðrof, neikvætt og gildishlaðið, og ég myndi kannski nota annað orð yfir þá hugarfarsbreytingu sem í útlöndum er kennd við sekúlaríseringu, og felst í aðskilnaði hins trúarlega sviðs og hins veraldlega sviðs,“ segir Guðmundur og bætir við: „Og ég tel að sé farsælt fyrirkomulag og ein undirstaða velgengni þeirra samfélaga Evrópu þar sem trúarleiðtogar hafa ekki hönd í bagga með landstjórninni eða veruleg afskipti af daglegu lífi fólks, með kreddum sem urðu til við allt aðrar aðstæður en nú ríkja (umskurðarkrafan er gott dæmi, hreinlætiskrafa sem gerir ráð fyrir því að karlmaður sé nakinn í kufli í eyðimörk og eigi á hættu að fá sandkorn undir forhúðina). Sem sé: afhelgun. Kirkjan hefur ekki lengur vald yfir … aðgang að … umsjón með. En hún er þarna samt og getur áfram verið opinn faðmur, staður tilbeiðslu og íhugunar, bænarathvarf og samfélag kringum tiltekið verðmætamat og gildi, full af samhengi og sögu, kærleiksrík en ekki ströng, skapandi en ekki bókstafsbundin.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt