Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, birtir fróðlega tölfræði yfir afkomu Landsvirkjunar og álvers Rio Tinto í Straumsvík síðastliðin sjö ár. Álverið fagnar 50 ára afmæli þessa dagana, en Landsvirkjun hélt upp á 50 ára afmæli sitt árið 2015. Vilhjálmur nefnir að Landsvirkjun hafi í raun verið stofnuð vegna byggingu Búrfellsvirkjunar, fyrstu stórvirkjun landsins,sem sá og sér álverinu fyrir rafmagni og því sé fróðlegt að bera samana afkomu fyrirtækjanna síðustu árin:
„Það má því hæglega halda því fram að álverið í Straumsvík hafi markað upphafið að því stórveldi sem Landsvirkjun er nú orðin, en rétt er að geta þess að álverið í Straumsvík er næst stærsti viðskiptavinur Landsvirkjunar. Það er því eilítið fróðlegt að skoða fjárhagsstöðu þessara tveggja fyrirtækja síðustu 7 ára í ljósi þess að bæði fyrirtækin hafa fagnað 50 ára afmæli,“
segir Vilhjálmur.
Vilhjálmur nefnir að Landsvirkjun hafi á síðustu sjö árum hagnast um tæpa 56 milljarða, frá 2012 til 2018. Á sama tíma hafi eigið fé fyrirtækisins aukist um tæpa 50 milljarða.
Til samanburðar hefur álverið tapað um 15 milljörðum króna og eigið fé lækkað um 17.5 milljarða á sama tíma.
Vilhjálmur rekur mismuninn og tap álversins til raforkuverðs Landsvirkjunar, en Vilhjálmur hefur lengi eldað grátt silfur við fyrirtækið:
„Mitt mat er að það sé vegna þess að gerður var nýr raforkusamningur við álverið seinnihluta árs 2010 þar sem álverstengingin var afnumin og raforkuverð hækkaði umtalsvert í kjölfarið. Forsvarsmenn Landsvirkjunar hafna því alfarið að stórhækkun á raforkuverði til Straumsvíkur hafi nokkuð með þessa skelfilegu afkomu að gera og vísa í lækkunar á afurðaverðum og hækkunar hárvöruverðum. Vissulega á það ugglaust einhverja skýringu á lakari afkomu, en alls ekki alla enda nægir að nefna að Norðurál hefur hagnast á sama tíma um tæpa 26 milljarða á meðan tap álversins í Straumsvík er um 15 milljarðar.“
Vilhjálmur segir önnur fyrirtæki gætu farið undir vegna verðhækkana Landsvirkjunar:
„En það mun klárlega byrja að halla undan fæti einnig hjá Norðuráli og Elkem Ísland, enda hefur Landsvirkjun einnig náð að knýja nýverið í gegn á grundvelli einokunar á raforkumarkaði umtalsverða hækkun á raforkuverði til Norðuráls og Elkem á Grundartanga. En sú hækkun nemur rúmum 5 milljörðum á ári samanlagt. Það nægir að horfa á afkomutölur álversins í Straumsvík til að sjá að verið sé að ógna atvinnuöryggi og lífsviðurværi þúsunda fjölskyldna sem byggja afkomu sína á Þessum iðnaði vegna græðgisvæðingar Landsvirkjunar.“
Hann bætir svo við að fjármálaráðherra geri lítið í málinu:
„Á meðan þetta er að gerast horfir fjármálaráðherra aðgerðalaus á meðan LV er að stefna lífsviðurværi þúsunda fjölskyldna og byggðarlaga í fullkomna óvissu, en fjármálaráðherrann nuddar bara höndunum saman því það á jú að stofna nýjan þjóðarsjóð. Skítt með atvinnu handa fólkinu og tryggja örugga byggðarfestu, þeim má fórna á græðgisaltari Landsvirkjunar og að hingað sé hægt að leggja sæstreng ef þessi iðnaður lagst af.“