Samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup ber aðeins um þriðjungur Íslendinga mikið traust til þjóðkirkjunnar. Er það svipað hlutfall og í fyrra, en þá hafði traustið lækkað frá fyrri mælingum. RÚV greinir frá.
Þá eru 55% þjóðarinnar hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju, sem er álíka mikið og fyrri mælingar og einungis 19% Íslendinga eru ánægðir með störf biskups, Agnesar M. Sigurðardóttur, sem er þó fimm prósentustiga aukning frá því í fyrra.
Árið 1999 báru 61% mikið eða fullkomið traust til þjóðkirkjunnar, en nú ber þriðjungur hvorki mikið né lítið traust til hennar og þriðjungur ber lítið traust til hennar einnig.
Mest er traustið hjá körlum og eldra fólki sem og íbúum landsbyggðarinnar. Þá bera kjósendur Framsóknarflokksins mesta traustið til þjóðkirkjunnar þegar litið er til stjórnmálaskoðana, eða 60% þeirra. Um 53% kjósenda Sjálfstæðisflokksins bera mikið traust og 48% þeirra sem kjósa Miðflokkinn. Minnsta traustið mælist hjá kjósendum Pírata eða 9 prósent.