„Stöðvum tilgangslaus flug á ráðstefnur. Ráðstefnur eru 90% hlunnindi starfsfólks, dulbúin sem mikilvæg vinna og tengslamyndun.“
Þetta skrifar Jökull Sólberg Auðunsson á Facebook. Hann ritar annars greinar á vefsvæðin Sólberg og Reykjavík Mobility.
Það kom fram í fréttum í vikunni að utanlandsferðir þeirra sem eru í yfirstjórn Alþingis, embættismanna semsé, hafi stóraukist á þessu ári. Flug væri ekki kolefnisjafnað. Það er bara eitt dæmi. Ekkert bendir til þess að fólk reyni að skera niður vinnuferðir sínar vegna loftslagsvárinnar. Það er eiginlega þvert á móti. Oft gæti fjarfundabúnaður komið að góðum notum, sýnist manni.
Nú er á sinn hátt gott að fólk auki víðsýni sína með því að ferðast til útlanda og hitta kollega. En slíkar ferðir hljóta að þurfa að snarminnka ef við meinum eitthvað með því að sporna við hamfarahlýnun.
En svo er líka hægt að líta á þetta á annan veg. Hversu mikil hlunnindi eru það að fljúga til útlanda á fundi og ráðstefnur? Getur það ekki verið kvöð, jafnvel hundleiðinlegt.
Það er takmörkuð skemmtun að fjúga, flugstöðvar eru nánast martröð, ferðalög til og frá flugvöllum eru lítið gaman – og það getur líka verið dauflegt að vera einn á hóteli í framandi borg um nótt. Marcel Proust skrifar um það að vakna einn um miðja nótt á framandi hóteli í hinu mikla skáldverki Í leit að glötuðum tíma. Ferðalangurinn gleðst við að sjá ljósrönd við dyrnar:
„Hvílíkur léttir, það er kominn morgunn! Eftir andartak verður þjónustufólkið komið á stjá, hann getur hringt og honum verður komið til hjálpar. Vonin um linun eykur honum þrek til að þjást. Rétt í þessu telur hann sig greina fótatak; það færist nær en fjarlægist síðan. Og ljósröndin undir hurðinni slokkar. Það er miðnætti; slökkt hefur verið á gasinu; síðasti þjónninn á bak og burt og hann horfir fram á heila þjáningarnótt einn og yfirgefinn.“ (þýðing Pétur Gunnarsson)
Ferðalangur Prousts er taugahrúga – það ekki einsdæmi í bókum hans. En það er vissulega rétt að líf þess sem ferðast í viðskiptaerindum eða opinberum erindagjörðum er ekki alltaf dans á rósum og kannski ekki svo eftirsóknarvert. Það er reyndar hætt við að þeir sem eru á funda- og ráðstefnurúntinum til útlanda taki heldur illa í að skera niður flugferðirnar. En hverju væru þeir að missa af? Tökum til að mynda þessa grein sem birtist í The Economist fyrir nokkrum árum. „Hið dapra og sjúka líf viðskiptaferðalangsins“.
.