Senn líður að verklokum endurgerðar Hverfisgötu frá Smiðjustíg niður fyrir Ingólfsstræti samkvæmt frétt á vef Reykjavíkurborgar.
Um helgina verður lokið við að steinleggja torg á gatnamótum Hverfisgötu og Ingólfsstrætis. Við þann áfanga kemur vel í ljós hve miklu framkvæmdirnar munu breyta fyrir ásýnd götunnar.
Í næstu viku verður unnið að lokafrágangi gangstéttar og hjólastígs við norðanverða Hverfisgötu við Safnahús og Þjóðleikhúsið. Steinlagt torg fyrir framan Þjóðleikhúsið verður tilbúið í lok fyrstu viku nóvember og verður opnað fyrir allri umferð í beinu framhaldi. Vinnu við frágang gangstéttar og hjólastígs að sunnanverðu á að ljúka um miðjan nóvember.
Vertar og verslunarmenn hafa kvartað sáran yfir framkvæmdunum, sem farið hafi langt fram úr tímaáætlunum og heft aðgengi að verslunum og veitingastöðum, sem hafi stuðlað að gjaldþrotum fyrirtækja og því að þau flýji nú miðbæinn.
Ásmundur Helgason er einn eigenda veitingastaðarins Gráa kattarins á Hverfisgötu. Hann segir staðinn „rétt lafa“ vegna tafa á framkvæmdum og upplýsingaskorti hjá Reykjavíkurborg og krefst tafarbóta af borginni. Hann beindi orðum sínum beint til formanns skipulagsráðs í færslu á Facebook á dögunum:
„Borgarfulltrúinn sem er formaður skipulagsráðs svarar ekki tölvupóstum, sem fyrr, og firrir sig þannig allri ábyrgð. Því spyr ég hana hér; Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, hefur borgin tekið afstöðu til þess að greiða okkur bætur vegna hinna miklu tafa sem hafa verið við framkvæmdir á neðri hluta Hverfisgötu?“