fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Eyjan

Már réttlætir leynisamninginn og sér ekki eftir neinu- „Ekkert óeðlilegt við þetta“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 24. október 2019 09:06

Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, telur ekkert óeðlilegt við þann samning sem bankinn gerði við Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, sem hljóðaði upp á 18 milljónir króna og var flokkaður sem námsstyrkur. Már segir að Ingibjörg hafi sýnt „stjörnuleik“ í störfum sínum fyrir bankann, en hún kom þó ekki að starfa fyrir bankann að námi loknu. Már sagði við Vísi að samningurinn sé ekki sá eini sinnar tegundar, hvorki í viðskiptalífinu né í seðlabankanum, þar sem margir slíkir hafi verið gerðir þar, bæði í hans tíð og áður:

„Þetta á sér reyndar stað í bönkum og fyrirtækjum eftir því sem ég best veit. Að starfsmenn sem þykja standa sig vel, og komast í gott nám en geta ekki fjármagnað sig, búnir að vinna í ákveðinn tíma, að þeir fái svona samninga, stundum í eitt ár, stundum í tvö ár. Sumir hafa fengið þetta í doktorsnám og þar á meðal ég, þar var það lengri tími, og það hafa verið nokkrir slíkir samningar í sögu bankans. Það er ekkert óeðlilegt við þetta, þetta er hluti af eðlilegri mannauðsstjórnun og því að tryggja bankanum hæft starfsfólk, þannig að hann sé með nógu hæft og gott lið til að tala við útlendinga og svoleiðis. Þetta er ekkert nýtt.“

Þetta stangast á við orð Gylfa Magnússonar, formanns bankaráðs Seðlabanka Íslands, sem taldi samninginn „sérstakan gjörning“ og einsdæmi í bankanum.

Hæsti samningurinn

Már segir að sérstaða samningsins við Ingibjörgu hafi verið sá hversu hátt sett hún var, venjulega séu slíkir samningar gerðir við fólk á lægri stigum. Þá tekur hann einnig fram að sérstaða samningsins sé að ekki hafi verið skilyrði um að Ingibjörg sneri aftur til starfa fyrir bankann.

Már segir einnig að hann hafi samið við Ingibjörgu þar sem hún hafi sýnt á sér fararsnið, en hann hafi ekki viljað missa svo öflugan starfsmann og það væri hans hlutverk að að koma í veg fyrir að hún færi.

„Vegna þess að bæði var hún mjög öflug og svo hitt að hún var búin að byggja upp töluverða þekkingu á málaflokknum í gegnum starfið og það hefði verið miklu erfiðara fyrir bankann ef hún hefði farið. Svo geta sumir sagt: Hefði það ekki gengið upp að lokum? Kannski.“

Ingibjörg þurfti að starfa fyrir bankann í minnst tvö ár til að uppfylla starfsskyldu sína, en þau urðu alls fjögur. Árið 2016 átti síðan að efna samkomulagið, sem hljóðaði upp á heimild Ingibjargar til leyfis frá störfum þar til náminu væri lokið, auk átta milljóna króna styrk, og 60% af launum í 12 mánuði. Samkvæmt Fréttablaðinu voru laun hennar 1.4 milljónir á mánuði og því um alls 18 milljónir að ræða.

„Þetta er held ég sá samningur sem er hæstur, allavega af eins árs samningunum, en auðvitað voru sumir samningarnir sem höfðu komið áður, fyrr á árum, til lengri tíma en það,“

segir Már og nefnir einnig að samningurinn hafi ekki verið starfslokasamningur þar sem Ingibjörg hafi ekki látið strax af störfum eftir að námi lauk, heldur nokkru síðar. Þá hafi engin ástæða hafi þótt til að leggja hann fyrir bankaráð Seðlabankans.

Sér ekki eftir neinu

Á endanum mistókst Má ætlunarverk sitt þar sem Ingibjörg sneri í raun ekki aftur og bankinn varð nokkrum milljónum fátækari, en Ingibjörg stóð uppi með 18 milljónir og frábæra MPA menntun frá Harvard. Már segir hinsvegar við Vísi að eftir á að hyggja, miðað við þróun mála, hafi hann tekið rétta ákvörðun, bankanum í hag:

„Þá held ég að sé alveg ótvírætt hægt að segja að Ingibjörg hafi leikið algjöran stjörnuleik. Hafi ég haft efasemdir um þennan gjörning þegar hann var gerður þá hafði ég engar efasemdir um að þetta hafi verið góður gjörningur fyrir bankann og land og þjóð eftir á. Til dæmis má nefna að hún, ásamt Steinari Guðgeirssyni, björguðu milljörðum, og jafnvel tugum milljarða fyrir íslenskt þjóðarbú þegar verið var að ganga frá stöðugleikaframlögunum./

En þetta var væntanlega illa gert við hana vegna þess að ef hún hefði hætt þarna í janúar 2012 þá hefði hennar líf auðvitað orðið miklu auðveldara. Hún hefði ekki verið í þessum svakalega darraðardansi og ekki þurft að sitja undir þeim rógburði sem hún þurfti að sitja því hún hafði stigið á einhverjar feitar tær. Þannig að það má halda því fram að ég hafi gert henni óleik en bankanum góðan leik að telja hana inn á að vera áfram.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK