Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri frá 2009 -2019, sér sig knúinn til að leggja orð í belg varðandi umræðuna um málefni seðlabankans, þó svo hann segist ekki hafa ætlað sér að gera slíkt svo skömmu eftir að hann lét af embætti.
Hann segist nauðbeygður til að gera undantekningu, þar sem umræðan um peningaþvætti sé á villigötum og að Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, sem hann segir einn albesta blaðamann landsins, fari ekki rétt með:
„Í þessu máli hefur hann þó eitthvað villst af leið.“
Þórður sagði í Silfrinu um helgina að fjárfestingaleið seðlabankans 2011 -2015 hafi verið skýrt dæmi um opinbera peningaþvættisleið, í umræðum um stöðu Íslands á gráum lista FATF, vegna óviðunandi varna hér á landi gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Í hnotskurn segir Már að þetta sé rangt hjá Þórði, Seðlabankinn hafi opnað leið fyrir fé úr skattaskjólum strax árið 2009. Þá telur hann að viðskiptabankarnir hafi borið ábyrgð á því að kanna hvort fé væri að koma úr skattaskjólum, því það hefði ellegar þýtt kostnað fyrir Seðlabankann. Auk þess ættu viðskiptabankarnir að þekkja sína viðskiptavini. Þá telur Már að sú staða Íslands að vera á gráum lista FATF v sé ekki til kominn út af fjárfestingaleiðinni.
„Í Kjarnanum 21. október sl. heldur hann (Þórður) því fram að fjárfestingarleiðin hafi opnað leið inn fyrir höftin fyrir þá sem áttu fjármuni utan þeirra. Þetta er ekki rétt,“ segir Már.
„Sú leið var opnuð í október 2009 þegar fjármagnshöft á innflæði erlends gjaldeyris vegna nýfjárfestingar hér á landi voru afnumin. Það var gert sakir þess að greiðslujafnaðarvandi Íslands var þá og í mörg ár á eftir útflæðisvandi en ekki innflæðisvandi. Þau sem komu inn með erlendan gjaldeyri eftir þetta þurftu að skipta honum í íslenskar krónur hjá fjármálafyrirtæki hér á landi og tilkynna um viðskiptin til Seðlabankans í gegnum fjármálafyrirtækið. Eftir það höfðu þau hvenær sem er heimild til útgöngu með þá fjármuni og alla ávöxtun þeirra. Samkvæmt lögum áttu bankarnir að kanna slíkar færslur eins og aðrar með tilliti til peningaþvættis og Fjármálaeftirlitið að hafa eftirlit með því að svo væri gert.“
Már segir fjárfestingarleiðina hluta af gjaldeyrisútboðum sem Seðlabankinn efndi til á árunum 2011-2015 sem miðuðu að því lækka stöðu aflandskróna og greiða þannig fyrir losun fjármagnshafta.
„Það tókst vel því samtals lækkaði staða aflandskróna vegna útboðanna um 175 ma.kr. eða úr um fjórðungi landsframleiðslu í u.þ.b. 13%. Í framhaldinu var hægt að ráðast í að losa fjármagnshöftin að langmestu leyti á árunum 2015-2017. Seðlabankinn gaf út ítarlega skýrslu um þessi útboð í ágúst sl. og vísast til hennar um nánari lýsingu en hér haldið áfram með peningaþvættisþáttinn.“
Grein Más má lesa hér.