„Þetta hljómar afar undarlega í okkar augum. Við eigum í sjálfu sér eftir að sjá útfærsluna, en þetta er náttúrulega bara skattur á Bolvíkinga umfram aðra landsmenn. Ef ríkið vill bjóða skipti á þessum skatti og þessum rúmlega 300 m.kr. sem fara frá Bolungarvík í formi veiðigjalda þá erum við tilbúinn í viðræður,“
segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkur í samtali við Eyjuna, vegna fyrirhugaðra áforma ríkisstjórnarinnar um að rukka veggjöld við samgöngumannvirki/jarðgöng á landsbyggðinni.
Eini vegurinn til Bolungarvíkur liggur í gegnum Bolungarvíkurgöng sem aukið hefur samgöngur milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur umtalsvert frá opnun þeirra árið 2010, en þau eru næst-fjölförnustu göng Íslands á eftir Hvalfjarðargöngum.
Um 822 bílar fara að jafnaði um Bolungarvíkurgöngin á hverjum sólarhring samkvæmt tölum frá 2018, sem er um tvöfalt meiri umferð en í Norðfjarðargöngum, sem tengir Eskifjörð og Norðfjörð á Austfjörðum. Þá má nefna að kostnaðurinn við göngin var undir áætlun.
Jón segir þessar tillögur hleypa illu blóði í heimamenn sem hafa enga aðra leið til að sækja sér þjónustu utan bæjarins, ekki síst þegar samgönguráðherra tali fyrir þvingaðri sameiningu sveitarfélaga:
„Bolvíkingar hafa enga aðra leið til að nálgast margvíslega þjónustu sem ríkið býður uppá nema að fara í gegnum göngin. Hér er ekki spítali, hér er ekki sýslumaður, enginn banki er með þjónustufulltrúa í Bolungarvík, fólk sækir verslun, afþreyingu o.s.frv. í gegnum göngin. Það er erfitt að skilja möntruna um aukna samvinnu og þvingaða sameiningu á sama tíma og verið er að skattleggja einu leiðina til samvinnu sem við höfum,“
segir Jón Páll við Eyjuna, en búast má við bókun um málið á fundi bæjarráðs sem haldinn er í dag.
Bæjarráð Ísafjarðar hefur einnig gagnrýnt þessi áform og kallar eftir nánari útlistun á áformunum um veggjöld í jarðgöngum:
„Bæjarráð telur ekki boðlegt að íbúar þurfi að greiða veggjöld þegar aðeins er ein leið í boði milli byggðakjarna.“